Nóróveira er algeng orsök magakveisu
23. ágúst 2024
Síðustu vikur hefur nokkuð borið á tilkynningum um magakveisur hjá hópum fólks á ferðalögum innanlands, meðal annars á vinsælum ferðamannastöðum á hálendinu. Í einhverjum tilfellum hefur verið staðfest að um smit af völdum nóróveiru var að ræða.
Nóróveira er oft tengd hópsýkingum
Hópsýkingar af völdum nóróveiru eru vel þekktar þar sem margir koma saman í afmörkuðu rými, svo sem á leikskólum og skólum, hjúkrunarheimilum, gististöðum og skemmtiferðaskipum. Smitleiðir eru margar en getur veiran smitast beint manna á milli við snertingu og nóróveira er algeng ástæða matartengdra sýkinga. Aðrar algengar smitleiðir eru frá snertiflötum (hurðarhúnum, borðbúnaði o.fl.) eða hugsanlega með neysluvatni. Vatnsbornar hópsýkingar hérlendis síðustu áratugi hafa nær allar verið af völdum annaðhvort Campylobacter eða nóróveiru.
Einkenni og gangur nóróveirusýkinga
Algengustu einkennin eru uppköst og/eða niðurgangur sem fylgt geta kviðverkir, beinverkir, höfuðverkur og stundum vægur hiti. Engin lyf eru til sem meðferð. Sjúkdómurinn gengur í langflestum tilfellum yfir á 1-2 sólarhringum án nokkurrar meðferðar. Aldraðir og þeir sem eru veikir fyrir geta þó orðið alvarlega veikir, sérstaklega vegna ofþurrks. Ekki er hægt að bólusetja gegn nóróveirusýkingum. Mikilvægt er að drekka nóg til að forðast ofþornun og hægt að nota parasetamól ef þarf vegna höfuð- eða beinverkja.
Nóróveira er mjög smitandi
Nóróveirur eru mjög smitandi því örfáar veirur geta valdið sýkingu. Einstaklingar með nóróveirusýkingu eru smitandi meðan á veikindum stendur en eru í flestum tilfellum lausir við smit 2-3 sólarhringum eftir að einkenni eru horfin. Þó eru dæmi um smitandi einstaklinga allt að 10 dögum eftir bata.
Forvarnir gegn smiti
Góður og tíður handþvottur er ávallt mikilvægur og er árangursríkasta leiðin til að koma í veg fyrir smit. Fólk sem er veikt af nóróveiru ætti að halda sig til hlés og alls ekki elda eða bera fram mat fyrir aðra á meðan einkenni vara og í minnst 2 daga eftir að einkenni hætta. Yfirborðsfleti í umhverfi þess veika ætti að þvo vel og sótthreinsa. Einnig skal þvo tau eins og fatnað, rúmföt og handklæði á háum hita.
Áhrifaríkar leiðir til hreingerninga
Varðandi þrif og sótthreinsun þar sem nóróveirusmit hafa komið upp:
Gæta skal varúðar þegar hreinsað er eftir einstaklinga með nóróveirusýkingu þar sem uppköst og niðurgangur eru bráðsmitandi.
Veiran getur lifað lengi (dögum saman en allt að tvær vikur) á yfirborði t.d. á snertiflötum eins og hurðarhúnum og smit úr umhverfi er því hugsanlegt.
Fjarlægja skal og þvo fatnað, rúmfatnað og handklæði sem gæti hafa mengast. Þvo hendur vel á eftir. Mengað tau er þvegið með þvottaefni, við hæsta mögulega hitastig samkvæmt því sem tauið þolir og þurrkað helst í þurrkara.
Hreinsa og sótthreinsa mengað yfirborð: Hefðbundið spritt nægir EKKI til að eyða nóróveirum. Þvo yfir svæðið með vatni og sápu. Sótthreinsa til dæmis með klórblöndu 1000 ppm að styrk (bleikiklór 5% í hlutföllunum 1 hluti klórs á móti 50 hlutum vatns).
Með því að fylgja þessum leiðbeiningum geturðu hjálpað til við að koma í veg fyrir útbreiðslu nóróveiru og verndað þig og aðra gegn sýkingu.
Ýmsar leiðbeiningar um nóróveirusýkingu og almennar smitvarnir og hreinlæti:
Bæklingur: Komið í veg fyrir smit af nóróveirum, leiðbeiningar fyrir almenning
Smitsjúkdómar a-ö á vef embættis landlæknis (undir liðnum nóróveirur)
Sóttvarnalæknir