Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Embætti landlæknis Forsíða
Embætti landlæknis Forsíða

Embætti landlæknis

Mat á heilbrigðisviðbúnaði við bráðri lýðheilsuvá á Íslandi - Skýrsla Sóttvarnarstofnunar Evrópu (ECDC) um stöðu heilbrigðisviðbúnaðar

13. október 2025

Fyrsta heildstæða mat ESB á heilbrigðisviðbúnaði Íslands við bráðum lýðheilsuógnum hefur verið framkvæmt.

Matið er hluti af reglubundnu ferli samkvæmt reglugerð ESB, sem miðar að því að efla forvarnir, viðbúnað og viðbragðsgetu aðildarríkja ESB og EES gegn alvarlegum heilsuógnunum þvert á landamæri.

Matið á Íslandi 2025

Matið fór fram dagana 2.–6. júní 2025 og byggðist á yfirferð gagna og vettvangsheimsókn alþjóðlegs sérfræðingateymis. Metin voru 16 hæfnisvið, þar á meðal heilbrigðisviðbúnaður í neyðarástandi, rannsóknastarfsemi, vöktun, sýklalyfjaónæmi og sýkingar tengdar heilbrigðisþjónustu, súnur og umhverfisógnir.

Helstu niðurstöður

Heilbrigðiskerfi Íslands er miðstýrt, opinberlega fjármagnað kerfi með sterka samvinnu milli geira, sem leiðir til skjótrar upplýsingamiðlunar og árangursríkrar ákvarðanatöku vegna ýmissa atburða.

Samstarf milli heilbrigðis- og almannavarnayfirvalda er vel samþætt, sérstaklega í tengslum við náttúruvá. Viðbúnaður og vöktun lýðheilsu eru að mestu samhæfð á landsvísu en viðbragð fer fram bæði svæðisbundið og á landsvísu. Hins vegar er slíkt starf ekki alltaf talið hluti af verkefnum heilbrigðisstarfsmanna og umdæmin hafa ekki alltaf nægan mannafla til að sinna sóttvörnum á sviði lýðheilsu. Enn fremur mætti skilgreina og formfesta sum hlutverk á sviði lýðheilsu betur til að tryggja skýra ábyrgð og forðast skörun.

Tillögur til úrbóta

Til að efla innviði lýðheilsu og viðbúnaðar á Íslandi eru lagðar fram fjórar lykiltillögur til úrbóta:

  • Samþætting lýðheilsu í daglegri heilbrigðisþjónustu, meðal annars með aukinni þátttöku umdæmislækna og sérstöku fjármagni til þeirra starfa.

  • Auka getu til viðbúnaðar og viðbragðs hjá sóttvarnalækni, og öðrum hagaðilum á sviði lýðheilsu, þar á meðal með þátttöku í þjálfun í Evrópu.

  • Formfesta óformlegt samstarf í viðbragðsáætlun um heimsfaraldur til að tryggja samfellu, seiglu og skilvirkni.

  • Skýra hlutverk og ábyrgð á landsvísu og í umdæmum varðandi vöktun, forvarnir, viðbúnað, viðbrögð, gæðaeftirlit og mat á starfinu.

Mat ECDC er hluti af þriggja ára ferli sem nær til allra ESB/EES-ríkja á árunum 2024–2026. Niðurstöður og tillögur verða nýttar til að efla viðbúnað og viðbragðsgetu íslenska heilbrigðiskerfisins gagnvart heilsuógnum í framtíðinni.

Sóttvarnalæknir