Málþing í tilefni Forvarnardagsins 2024
2. október 2024
Forvarnardagurinn verður haldinn í nítjánda skipti í dag 2. október og af því tilefni er boðið upp á málþing undir yfirskriftinni „Hugum að verndandi þáttum og vellíðan í lífi barna og ungmenna með kærleik“.
Málþingið hefst kl. 10:00 og verður í streymi á vefsíðu Forvarnardagsins en einnig má nálgast streymi Forvarnardagsins á Youtube.
Dagskrá málþings:
Skólastjóri býður gesti velkomna.
Fundarstjórn – Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, sviðstjóri lýðheilsusviðs embættis landlæknis.
Til máls taka:
Forseti Íslands, Halla Tómasdóttir
Landlæknir, Alma D. Möller
Formaður borgarráðs, Dagur B. Eggertsson
Margrét Lilja Guðmundsdóttir, þekkingarstjóri hjá Planet Youth: Ekkert um ykkur án ykkar
Rödd ungmenna: Ernir Daði Arnbergz Sigurðsson og Karen Hulda Finnsdóttir fulltrúar úr ungmennaráði UMFÍ
Þátttaka í Forvarnardeginum
Grunn- og framhaldsskólar landsins geta skráð sig til þátttöku á vefsíðu Forvarnardagsins og geta í kjölfarið nálgast efni þar sem sjónum er sérstaklega beint að ungmennum í 9. bekk grunnskóla og á fyrsta ári í framhaldsskóla. Lögð er áhersla á verndandi þætti gegn áhættuhegðun: Samveru með fjölskyldu, þátttöku í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi og því að leyfa heilanum að þroskast. Gengið er út frá að skólar vinni verkefnin á tímabilinu 2. – 23. október. Nemendur geta tekið þátt í verðlaunaleik sem kynntur er á vefsíðu Forvarnardagsins 2. október. Skilyrði fyrir þátttöku er að nemendur séu í 9. bekk grunnskóla eða á fyrsta ári í framhaldsskóla og skólinn þeirra taki þátt í Forvarnardeginum.
Embætti landlæknis fer með verkefnastjórn Forvarnardagsins og samstarfsaðilar eru embætti forseta Íslands, Reykjavíkurborg, Rannsóknir og greining, Planet Youth, Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Ungmennafélag Íslands, Samfés, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samstarf félagasamtaka í forvörnum, Bandalag íslenskra skáta, Ríkislögreglustjóri og Heimili og skóli.
Sveitarfélög eru hvött til að setja forvarnir á dagskrá í októbermánuði. Mörg sveitarfélög hafa undanfarin ár skipulagt dagskrá forvarna í októbermánuði í samstarfi við ýmsa aðila, félög og stofnanir í þeirra samfélagi. Einnig er mikil hvatning til foreldra að taka þátt og endurvekja gott foreldrasamstarf en þar geta skólar, félagsmiðstöðvar og sveitarfélög veitt góðan stuðning.
Við hvetjum skóla, félagsmiðstöðvar, íþróttafélög, foreldrafélög, samfélög og aðra að huga vel að því að fá fagfólk til að tala við börn og ungmenni um forvarnir og áhættuhegðun. Faglært starfsfólk í skólum, félagsmiðstöðvum og aðrir sem vinna með börnum og ungmennum eru best til þess fallin til að sinna forvarnarkennslu og fræðslu. Ef utanaðkomandi aðilar eru fengnir til að tala við börn og ungmenni um áhættuhegðun þarf að huga vel að því hvernig fræðslan fer fram og sérstaklega að ekki sé verið að valda skaða. Í þessu samhengi er bent á staðreyndablað um Hvað virkar í tóbaks-, áfengis- og vímuforvörnum í skólum og Alþjóðlega staðla um vímuefnaforvarnir.
Nánari upplýsingar:
Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, sviðstjóri lýðheilsusviðs
Ingibjörg Guðmundsdóttir, verkefnastjóri Heilsueflandi grunn- og framhaldsskóla
Lísbet Sigurðardóttir, verkefnastjóri Samanhópsins