Fara beint í efnið
Embætti landlæknis Forsíða
Embætti landlæknis Forsíða

Embætti landlæknis

Lyfjatengd andlát á Íslandi árið 2023

6. nóvember 2024

Tölur um lyfjatengd andlát árið 2023 hafa verið birtar á vef embættis landlæknis. Með lyfjatengdum andlátum er átt við andlát vegna eitrana ávana- og fíkniefna sem og lyfja.

Landlæknir logo - Fréttamyndir

Árið 2023 voru lyfjatengd andlát alls 56 hér á landi, þar af voru 15 sjálfsvíg (vísvitandi sjálfseitranir). Miðað við stærstu flokka dánarorsaka eru lyfjatengd andlát fá hér á landi. Þjóðin er fámenn og litlar breytingar á fjölda lyfjatengdra andláta valda því óhjákvæmilega nokkrum sveiflum í dánartíðni.

Mikilvægt er að túlka tölur einstakra ára af varúð enda getur verið um tilviljanakennda sveiflu að ræða. Til þess að jafna sveiflur milli ára og draga fram langtímaþróun lyfjatengdra andláta getur verið heppilegra að notast við meðaltöl nokkurra ára heldur en tíðni hvers árs. Þegar horft er til meðaltals undanfarinna ára á hverja 100 þúsund íbúa sést að það fer úr 9,0 árin 2014-2018 í 11,3 árin 2019-2023.

Þegar tölur síðasta árs eru skoðaðir eftir kyni sést að lyfjatengd andlát voru fleiri hjá körlum (35) en konum (21). Lyfjatengd andlát voru flest í aldursflokkunum 18-29 ára (15) og 30-44 (23). Af 56 lyfjatengdum andlátum árið 2023 voru 34 vegna ópíóíða-eitrana og 22 vegna eitrana af öðrum ávana- og fíkniefnum og lyfjum.

Nánar má lesa um skráningu lyfjatengdra andláta og túlkun talna á vef embættis landlæknis.

Nánari upplýsingar
Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður landlæknis
kjartan.h.njalsson@landlaeknir.is