Lokaskýrsla stýrihóps um hópsýkingu af völdum shiga-toxin myndandi E. coli
19. desember 2024
Stýrihópur um rannsókn á uppruna hópsýkingar af völdum shiga-toxin myndandi E. coli (STEC) í október síðastliðinn hefur skilað lokaskýrslu varðandi aðkomu hópsins að málinu.
Upphaf hópsýkingar
Þann 22. október síðastliðinn kom tilkynning til sóttvarnalæknis um staðfesta STEC greiningu hjá barni á leikskólaaldri á bráðamótttöku Landspítala. Grunur var um hópsýkingu þar sem fleiri börn af sama leikskóla höfðu leitað til bráðamóttöku með einkenni iðrasýkingar. Um kvöldið var stýrihópur myndaður í samræmi við leiðbeiningar um rannsóknir á hópsýkingum sem tengjast matvælum. Rekstraraðili leikskólans ákvað einnig að loka skólanum tímabundið.
Lýsing hópsýkingar og uppruni smita
Alls greindust 49 einstaklingar með staðfesta STEC sýkingu í þessari hópsýkingu, þar af 45 börn sem sækja leikskólann Mánagarð í Reykjavík. Hinir fjórir voru einnig með tengsl við leikskólann. Tólf börn voru lögð inn á legudeild Barnaspítala Hringsins, Landspítala, fimm börn inn á gjörgæslu og tvö þeirra þurftu skilunarmeðferð vegna nýrnabilunar.
Rannsókn leiddi í ljós að uppruni STEC sýkinganna var í kjöthakki sem notað var í máltið sem var framreidd þann 17. október á leikskólanum. Heilgenaraðgreiningar á E. coli stofnum sem ræktuðust úr kjöthakki og úr saursýnum sýktra einstaklinga staðfestu að um sama stofn E. coli var að ræða (E. coli O145:H25). Verklag við matseld í leikskólanum reyndist hafa verið ófullnægjandi hvað varðar meðhöndlun kjöthakksins, eldun þess og geymslu máltíðarinnar.
Leikskóli opnaður aftur
Fulltrúar heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur fóru í eftirlit í leikskólann og fóru yfir verklag og aðstæður auk þess að leiðbeina um úrbætur og veita starfsfólki fræðslu. Þrif og sótthreinsun fór fram í leikskólanum og opnaði leikskólinn aftur fyrir starfsemi þann 5. nóvember. Sóttvarnalæknir gaf út leiðbeiningar varðandi hvenær börn gátu mætt í leikskólann aftur. Leikskólinn býður nú upp á aðkeyptan mat þar til annað verður ákveðið af rekstraraðila í samráði við Heilbrigðiseftirlit.
E. coli iðrasýking
STEC er E. coli baktería sem framleiðir eiturefni (toxín) sem veldur skaðlegum einkennum sýkingarinnar. Sýkingin flokkast til súna sem eru sýkingar sem geta borist á milli manna og dýra. STEC er hluti af þarmaflóru dýra og helsta smitleiðin í menn er með menguðum matvælum og vatni en smit berst sjaldnar beint manna á milli. Matarsýkingar eru oft tengdar illa elduðum afurðum nautgripa og ógerilsneyddri mjólk, en fleiri gerðir matvæla hafa þó tengst STEC hópsýkingum.
Einkenni STEC sýkingar geta verið mismikil. Helsta einkenni er niðurgangur, stundum vægur en einnig svæsinn og blóðugur, kviðverkir og uppköst geta fylgt. Alvarlegur fylgikvilli STEC er rauðkornasundrunar- og nýrnabilunarheilkenni (á ensku hemolytic uremic syndrome; HUS), sem kemur oftar fyrir hjá börnum en fullorðnum.
Sóttvarnalæknir
Lesa nánar:
Lokaskýrsla um hópsýkingu af völdum STEC á Mánagarði í október 2024. Útg. desember 2024