Fara beint í efnið
Embætti landlæknis Forsíða
Embætti landlæknis Forsíða

Embætti landlæknis

Leiðbeiningar eftir hópsýkingu af völdum eiturmyndandi E.coli (STEC) tengda leikskólanum Mánagarði

4. nóvember 2024

Sóttvarnalæknir hefur gefið út leiðbeiningar um hvenær þau sem hafa tengsl við hópsýkingu á leikskólanum geta snúið aftur í skóla eða til vinnu.

Mynd með frétt. E. coli leiðbeiningar um hvenær börn mega snúa aftur í skóla og fullorðnir til vinnu.

Með þessum aðgerðum er verið að reyna að koma í veg fyrir að hópsýking komi aftur upp. Sjá nánar á vef embættis landlæknis.

Í stuttu máli:

Börn sem ekki hafa greinst með STEC

Börn sem ekki hafa farið í sýnatöku fyrir STEC en hafa fengið niðurgang eða lausar hægðir eftir 17. október síðastliðinn eða eru með niðurgang (eða fá niðurgang á næstu 2 vikum) eiga ekki að mæta í leikskólann og eiga að skila saursýni í PCR-rannsókn.

Algjörlega einkennalaus börn sem ekki hafa greinst með STEC geta mætt í leikskólann. Áfram þarf að huga vel að handþvotti og hreinlæti kringum máltíðir, klósettferðir og bleiuskipti þar sem við á.

Börn og fullorðnir sem hafa greinst með STEC

Þeir sem greinst hafa með STEC eiga ekki að fara í skóla eða til vinnu fyrr en að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, meðal annars að niðurgangur og önnur einkenni sýkingar séu gengin yfir og hægðir eðlilegar (mótaðar hægðir) í að minnsta kosti 2 sólarhringa. Eftir 2 sólarhringa án einkenna þarf að skila 2 saursýnum í PCR-rannsókn og bæði sýni þurfa að skila neikvæðri niðurstöðu til að fara í skóla/til starfa.

Fullorðnir starfsmenn leikskólans og heimilisfólk barna

Fullorðnir starfsmenn leikskólans og fullorðið heimilisfólk barna, sem veiktust eða greindust með STEC, sem starfar við matseld (eða framreiðslu matar) eða í heilbrigðisþjónustu við að sinna sjúklingum á að skila 2 saursýnum í PCR rannsókn og vera neikvæð fyrir STEC áður en mætt er til vinnu.

Annað heimilisfólk barna (börn og fullorðnir) þurfa ekki að skila sýni en allir ættu að vera einkennalausir af iðrakveisu í að minnsta kosti 2 sólarhringa (ef hafa haft einhver einkenni) áður en snúa til skóla eða vinnu.
Sjá nánar í leiðbeiningum.

Sóttvarnalæknir