Fara beint í efnið
Embætti landlæknis Forsíða
Embætti landlæknis Forsíða

Embætti landlæknis

Klínískar leiðbeiningar um greiningu og meðferð háþrýstings hafa verið gefnar út

26. september 2023

Klínískar leiðbeiningar um greiningu og meðferð háþrýstings hafa verið gefnar út.

Landlæknir logo - Fréttamyndir

Háþrýstingur (of hár blóðþrýstingur) er enn stórt vandamál og samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni er vangreindur og vanmeðhöndlaður háþrýstingur eitt af stærstu heilbrigðisvandamálum nútímans. Að sama skapi eru bætt greining og öflugri meðferð háþrýstings auk forvarnarstarfs meðal tækifæra til betri heilbrigðisþjónustu og heilsu. Háþrýstingur er áhættuþáttur hjarta-, nýrna- og heilasjúkdóma og sýnt hefur verið fram á að lækkun hækkaðs blóðþrýstings hamlar gegn öllum þessum stóru sjúkdómum nútímans, kransæðasjúkdómum, hjartabilun, alvarlegum hjartsláttartruflunum, heilablóðföllum, heilabilun og langvinnri nýrnabilun.

Þótt staðan hvað varðar greiningu og meðferð háþrýstings sé betri á Íslandi en víðast hvar eru sóknarfæri til að gera betur. Það var rætt á málþingi á Læknadögum og í framhaldinu var ákveðið að skrifa leiðbeiningar um greiningu og meðferð háþrýstings. Leiðbeiningarnar eru af ásetningi stuttar og knappar enda er markmiðið að draga saman aðalatriði málsins. Einnig er vísað til ítarlegri umfjöllunar margra virtra alþjóðlegra aðila og til umræðu sem hefur fjallað um mismunandi tillögur og rýnt mismunandi áherslur og ágreiningsmál.

Hópur valinkunnra sérfræðinga ritaði leiðbeiningarnar og kann landlæknir þeim bestu þakkir fyrir. Þau eru:

  • Emil Lárus Sigurðsson, prófessor við heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands og forstöðumaður fræðasviðs heimilislækninga og Þróunarmiðstöðvar íslenskrar heilsugæslu

  • Karl Andersen, prófessor við heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands, yfirlæknir Landspítala og Hjartavernd

  • Margrét Ólafía Tómasdóttir, yfirlæknir á Þróunarmiðstöð Íslenskrar heilsugæslu, lektor við heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands og formaður félags Íslenskra heimilislækna

  • Þórdís Jóna Hrafnkelsdóttir, hjartalæknir við Landspítala, dósent við heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands og formaður hjartasjúkdómafélags íslenskra lækna

  • Vilmundur Guðnason, prófessor við heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands og forstöðulæknir Hjartaverndar

  • Guðmundur Þorgeirsson, prófessor emerítus, heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands

Landlæknir hvetur lækna til að kynna sér leiðbeiningarnar og hafa að leiðarljósi við greiningu og meðferð háþrýstings.

Alma D. Möller landlæknir

Frekari upplýsingar:
Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður landlæknis
kjartan.h.njalsson@landlaeknir.is