Fara beint í efnið
Embætti landlæknis Forsíða
Embætti landlæknis Forsíða

Embætti landlæknis

Kíghósti greinist á Íslandi - fyrsta tilfelli síðan 2019

10. apríl 2024

Í síðustu viku greindust tveir fullorðnir einstaklingar með kíghósta á höfuðborgarsvæðinu. Kíghósti hefur greinst af og til á Íslandi og gjarnan komið hrinur á 3-5 ára fresti. Kíghósti greindist síðast á Íslandi árið 2019. Útbreiðsla sjúkdómsins í heiminum hefur farið vaxandi síðustu 20 árin og er sjúkdómurinn landlægur í sumum löndum.

Mynd. Tryggðu barni þínu forskot í lífinu

Um kíghósta

Kíghósti er alvarleg öndunarfærasýking hjá börnum, einkum á fyrstu mánuðum ævinnar. Hjá unglingum og fullorðnum einkennist sjúkdómurinn af langvarandi og þrálátum hósta og kvefeinkennum. Ungum börnum á fyrstu 6 mánuðum ævinnar er sérlega hætt við alvarlegum afleiðingum kíghósta, meðal annars slæmum hóstaköstum og öndunarstoppi og getur sjúkdómurinn verið þeim lífshættulegur.

Smit berst á milli manna með úða frá öndunarfærum. Yfirleitt líða um 2-3 vikur frá smiti þar til einkenni koma fram. Einkennin eru í fyrstu vægt kvef, síðan vaxandi hósti, slímsöfnun og slæm hóstaköst, sérstaklega á næturnar. Eftir um það bil tvær vikur færast einkennin í vöxt með áköfum hóstaköstum og fylgir þeim einkennandi soghljóð við innöndun. Önnur einkenni eru hnerri, nefrennsli og hiti. Einkenni sjúkdómsins geta verið til staðar í allt að 10 vikur. Sjúkdóminn má staðfesta með sýnatöku úr nefi/nefkoki og leit að erfðaefni bakteríunnar.

Forvarnir

Bólusetning er áhrifarík leið til að koma í veg fyrir sjúkdóminn hjá ungum börnum. Hér á landi eru börn bólusett við 3, 5 og 12 mánaða aldur og endurbólusett 4 og 14 ára gömul. Bóluefnið verndar ekki lengur en í um 10 ár og því er möguleiki á að smitast síðar á ævinni. Barnshafandi konum á Íslandi er boðin bólusetning til að verja barnið frá því að smitast fyrstu mánuði ævinnar.

Meðferð

Sýklalyf gera takmarkað gagn gegn kíghósta, nema ef til vill mjög snemma á sjúkdómsferlinum, þá fyrst og fremst til að draga úr smiti bakteríunnar til annarra.

Um kíghósta - vefur embættis landlæknis
Kíghósti, meðganga og bólusetning - vefur heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins

Heilsugæslan veitir ráðgjöf gegnum netspjall Heilsuveru eða í síma 1700

Sóttvarnalæknir