Handþvottur er helsta sýkingavörnin
5. maí 2023
Alþjóða handþvottadagurinn er 5. maí
Öll vitum við að það er nauðsynlegt að þvo hendur til að halda þeim hreinum. Í COVID faraldrinum vorum við reglulega minnt á að hreinsa hendur með handþvotti eða bera á þær handspritt til að rjúfa snertismitsleið veirunnar. Að fólk var duglegt við handhreinsun, en dró jafnframt úr nálægð við annað fólk, skilaði árangri í að draga úr dreifingu veirunnar. Árangurinn skilaði sér einnig í að það var mun minna um algengar umgangspestir eins og niðurgang og inflúensu en venjulega. Almennur handþvottur skilar merkjanlegum árangri.
Dagurinn í dag, 5. maí, er alþjóðlegur handþvottadagur. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin minnir á að handhreinsun skiptir gríðarlega miklu máli við að rjúfa smitleiðir sýkla. Í meðfylgjandi myndböndum frá Sóttvarnastofnun Evrópu (ECDC) er myndrænt minnt á hvernig sýklamengun getur dreifst frá einum til annars í daglegu lífi.
Við fáum sýkla á hendurnar úr umhverfinu í dagsins önn og getum dreift þeim víða, inn í okkur sjálf og til annarra, ef hendur eru ekki þvegnar reglulega. Handhreinsun með þvotti er grundvallarsýkingavörn sem skiptir afar miklu máli. Á seinni árum hefur notkun handspritts orðið útbreiddari og er það mjög góð aðferð til að drepa sýkla á húð handanna svo fremi að hendurnar séu sjáanlega ekki óhreinar en þá þarf að þvo þær áður en handspritt er borið á.
Aðgangur að handþvotti þarf að vera auðveldur. Handlaugar eiga að vera hreinar og snyrtilegar, hrein sápu innan seilingar og hreint handklæði eða bréfþurrkur. Það þarf að kenna börnum að þvo sér oft og vel um hendurnar. Fullorðnir þurfa að sýna hinum yngri gott fordæmi með því að þvo hendur við rétt tilefni því börnin læra það sem fyrir þeim er haft. Þeir sem ekki hafa getu til að þvo hendurnar vegna líkamlegra eða andlegra hindrana þurf að fá aðstoð við handhreinsun.
Handhreinsun er alltaf mikilvæg en sérstaklega þegar verið er að veita heilbrigðisþjónustu því skjólstæðingar hennar eru oft viðkvæmir. Gífurleg áhersla er lögð á handhreinsun innan heilbrigðisstofnana vegna þessa.
Eflum handþvott - Hreinar hendur hindra smit.
Sóttvarnalæknir