Hætta á heilsutjóni vegna gasmengunar í nágrenni eldstöðva
11. júlí 2023
Um klukkan 16:40 í gær, 10. júlí, hófst eldgos að nýju á Reykjanesi við fjallið Litla-Hrút, norðaustan við fyrri gossprungu. Gosið virðist stærra en síðustu gos á Reykjanesi en hefur þó minnkað talsvert í nótt. Gasmengun virðist einnig heldur meiri nú. Gas frá eldgosum getur verið skaðlegt heilsu fólks og mikilvægt er að fylgjast vel með gasmengun og loftgæðum, bæði í byggð og ef haldið er á gosstöðvarnar.
Sóttvarnalæknir vekur athygli á fræðslubæklingi fyrir almenning varðandi hættu á heilsutjóni vegna loftmengunar frá eldgosum. Bæklingurinn er samvinnuverkefni ýmissa stofnanna og í honum má finna upplýsingar um áhrif loftmengunar á heilsufar manna ásamt upplýsingum um hvernig helst má verja sig gegn loftmengun vegna eldgosa.
Veðurstofa Íslands gefur út gasmengunarspá og spálíkan sem sýnir brennisteinsmengun (SO2 og SO4) í byggð fyrir næstu 48 klukkustundir. Umhverfisstofnun vaktar loftgæði og heldur úti vefsíðunni loftgaedi.is þar sem finna má upplýsingar um loftgæði í þéttbýli og viðbrögð við loftmengun frá eldgosum.
Barnshafandi konur, börn og fólk sextíu ára og eldra ásamt einstaklingum með astma og aðra lungnasjúkdóma, eða hjarta- og æðasjúkdóma, er viðkvæmara fyrir gasmengun og því mikilvægt að þeir einstaklingar fylgist sérstaklega með loftgæðum og gasmengunarspá, haldi sig sem mest innandyra, loki gluggum og forðist áreynslu utandyra ef gasmengun er yfirvofandi. Þetta á sérstaklega við um Reykjanes og höfuðborgarsvæðið en gasmengun gæti þó teygt sig víðar.
Einstaklingar með lungnasjúkdóma s.s. árstíðabundið ofnæmi, astma og langvinna lungnateppu, eru sérstaklega hvattir til þess að nota þau bjargráð sem þau hafa og leita ráðlegginga hjá sínum lækni eða heilsugæslu varðandi lyfjanotkun.
Einstaklingum sem tilheyra ofangreindum hópum er eindregið ráðlagt frá því að ganga að gosstöðvunum.
Börn eru almennt viðkvæmari en fullorðnir fyrir loftmengun; börn anda öðruvísi en fullorðnir, bæði hraðar og rúmmál þess lofts sem þau draga að sér er hlutfallslega meira en hjá fullorðnum. Auk þess anda börn almennt minna í gegnum nef en munn. Börn hafa því verið látin njóta vafans og áhætta þeirra skilgreind eins og einstaklinga með undirliggjandi sjúkdóma. Þar að auki eru börn lægri en fullorðnir og því hættara við að vera útsett fyrir gasi sem safnast fyrir nálægt jörðu.
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum tekur ákvörðun um aðgengi að eldstöðvunum og mikilvægt er að þeir sem ætla að þeim kynni sér upplýsingar um aðgengi, hættur og þær gönguleiðir sem opnar eru áður en haldið er af stað. Slíkar upplýsingar eru jafnan birtar í tilkynningum lögreglustjóra.
Sjá:
Hætta á heilsutjóni vegna loftmengunar frá eldgosum. Leiðbeiningar fyrir almenning. 4. útgáfa. Nóvember 2022.
Gasmengunarspá. Veðurstofa Íslands
Loftgæði á Íslandi. Umhverfisstofnun
Sóttvarnalæknir