Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Embætti landlæknis Forsíða
Embætti landlæknis Forsíða

Embætti landlæknis

Dagur án tóbaks 31. maí 2025. Kastljósi varpað á aðferðir tóbaksiðnaðarins sem miða að því að auka tóbaks- og nikótínnotkun

31. maí 2025

Á degi án tóbaks í ár beinir Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) kastljósinu að blekkjandi markaðsaðferðum tóbaks- og nikótíniðnaðarins, sérstaklega þeim sem snúa að ungu fólki.

Þrátt fyrir verulegar framfarir í tóbaksvörnum á heimsvísu heldur tóbaks- og nikótíniðnaðurinn áfram, með markvissri markaðssetningu, að laða að nýja notendur en einnig að halda í eldri neytendur. Þessi viðleitni grefur undan lýðheilsu og beinist að viðkvæmum hópum, ekki hvað síst ungu fólki.

Markaðssetning tóbaks- og nikótíniðnaðarins snýst einkum um aðlaðandi umbúðir og stafrænar auglýsingaherferðir. Þema Dags án tóbaks í ár gengur út á að afhjúpa þær aðferðir sem tóbaks- og nikótíniðnaðurinn beitir til að gera skaðlegar vörur sínar aðlaðandi, sérstaklega fyrir ungt fólk. Með því vill WHO vekja athygli þeim tækifærum sem felast í innleiðingu á banni við bragðefnum í tóbaki og nikótínvörum og hvetja til strangara regluverks sem kemur í veg fyrir markaðssetningu á skaðlegum vörum.

Samkvæmt nýlegri skýrslu frá Nordic Welfare Centre nota íslensk ungmenni nikótínvörur í meiri mæli en ungmenni á öðrum Norðurlöndum og í Eystrasaltsríkjum. Til að draga úr skaðlegum áhrifum tóbaks og annarra nikótínvara er nauðsynlegt að beita virkum og áhrifaríkum aðgerðum sem byggja á stefnumótun stjórnvalda með lýðheilsu að leiðarljósi. Auk þeirra þátta sem WHO tilgreinir er ein áhrifaríkasta leiðin til að draga úr notkun, einkum meðal ungmenna, að hækka álögur á þessar vörur. Um síðustu áramót var lagt nýtt gjald á nikótínvörur sem miðast við nikótínmagn í hverri vöru. Tilgangur lagabreytingarinnar er að sporna við aukinni notkun nikótínvara meðal barna og ungmenna. Eins og fram kemur í nýútkomnum Talnabrunni benda fyrstu niðurstöður úr vöktun embættis landlæknis til þess að dregið hafi úr notkun nikótínpúða á fyrsta fjórðungi ársins 2025 og því má ætla að lagabreytingin sé þegar farin að skila árangri.

Frekari upplýsingar
Viðar Jensson, verkefnastjóri
hafsteinn.v.jensson@landlaeknir.is