Breytingar á embætti landlæknis
12. desember 2024
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hefur fallist á beiðni Ölmu D. Möller um lausn úr embætti landlæknis. Alma lét af störfum 10. desember sl.
Alma D. Möller, sem hefur gegnt embætti landlæknis frá 2018, var kjörin á þing í nýliðnum kosningum til Alþingis og baðst í kjölfarið lausnar frá embættinu. Alma hafði áður verið í leyfi frá störfum frá í lok október í aðdraganda kosninga.
Heilbrigðisráðherra hefur sett Guðrúnu Aspelund, sóttvarnalækni, tímabundið til að gegna embætti landlæknis frá og með 10. desember 2024 og til og með 31. janúar 2025. Guðrún hefur verið sóttvarnalæknir síðan árið 2022 og mun áfram sinna því starfi.
Embætti landlæknis verður auglýst laust til umsóknar á næstunni en heilbrigðisráðherra skipar, samkvæmt lögum um landlækni og lýðheilsu nr. 41/2007, landlækni til fimm ára í senn, að fengnu mati nefndar samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu.