Bólusetningar vegna mislinga – áherslur frá og með 9.2.2024
9. febrúar 2024
Þann 3. febrúar síðastliðinn greindust mislingar hér á landi í fyrsta sinn frá 2019. Nokkur hópur fólks var útsettur tvo dagana þar á undan og var óbólusettum í þeirra hópi boðin bólusetning síðastliðinn mánudag, 5. febrúar.
Að vera útsettur þýðir að hafa verið á sama stað og hugsanlega í nánd við smitandi einstakling þannig að smit gæti hafa átt sér stað.
Nú er tímabært að færa áherslu í bólusetningum til þess hóps sem er líklegastur til að smitast ef sýkingar koma upp meðal þeirra sem voru útsettir 1.–2. febrúar. Þetta eru óbólusett eða vanbólusett heimilisfólk þeirra sem fengu skilaboð um útsetningu (smithættu) í síðustu viku ef útsettir voru ekki með vissu fullbólusettir eða með sögu um mislinga sjálfir áður.
Hverjir meðal heimilismanna útsettra ættu að fá MMR bólusetningu á næstu dögum í þessu samhengi:
Áður vitanlega óbólusettir (enginn skammtur) einstaklingar fæddir 1975–2023 sem hafa náð 6 mánaða aldri þegar bólusetning er boðin.
Einstaklingar fæddir 1975–1987 sem ekki hafa með vissu fengið tvo skammta af mislingabóluefni.
Starfsfólk í heilbrigðisþjónustu sem hafa ekki með vissu fengið tvo skammta af MMR bóluefni, fæddir 1970–2000.
Hverjir meðal heimilismanna ættu ekki að fá MMR bólusetningu á næstu dögum í þessu samhengi:
Barnshafandi.
Ónæmisbældir (skert frumubundið ónæmissvar) – algengasta orsök bælingar á frumubundnu ónæmi er notkun ónæmisbælandi lyfja (stera, krabbameinslyfja og líftæknilyfja) en það skerðist einnig með hækkandi aldri, ekki er almennt mælt með mislingabólusetningu hér á landi fyrir fólk fætt fyrir 1975.
Aldur undir 6 mánuðum.
Gelatínofnæmi.
Fólk sem þegar er bólusett með tveimur skömmtum af mislingabóluefni (einþátta eða MMR).
Bólusetningar fara fram á heilsugæslustöðvum. Heimilisfólk útsettra getur fengið ráðgjöf um hvort bólusetningar er þörf í gegnum netspjall Heilsuveru eða í síma 1700. Þar fást jafnframt upplýsingar um hvar og hvenær er bólusett á höfuðborgarsvæðinu. Íbúar landsbyggðarinnar geta haft samband við sína heilsugæslu til að fá upplýsingar um bólusetningar.
Sóttvarnalæknir