Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Embætti landlæknis Forsíða
Embætti landlæknis Forsíða

Embætti landlæknis

Ársskýrsla um sýklalyfjanotkun og sýklalyfjanæmi baktería hjá mönnum og dýrum á Íslandi 2024

23. september 2025

Ársskýrsla um sýklalyfjanotkun og -næmi hjá mönnum og dýrum fyrir árið 2024 er komin út en þetta er í þrettánda sinn sem slík skýrsla er birt.

Skýrslan er gefin út í samstarfi við Matvælastofnun (MAST) sem leggur til kafla sem fjalla um sýklalyfjanotkun dýra ásamt sýklalyfjanæmi baktería sem tengjast matvælum og dýrum. Einnig lögðu Landspítali, Lyfjastofnun, Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum og Umhverfisstofnun til gögn í skýrsluna.

Notkun sýklalyfja hjá fólki og dýrum

Árið 2024 var notkun sýklalyfja hjá fólki svipuð og undanfarin ár. Um þriðjungur landsmanna fékk að minnsta kosti eina sýklalyfjaávísun á árinu, sem er fækkun frá árinu 2015. Flestum sýklalyfjum var ávísað utan sjúkrahúsa, aðallega af heimilislæknum. Penisillín er enn mest ávísaði sýklalyfjaflokkurinn en doxycýklín mest notaða einstaka sýklalyfið mælt í heildarfjölda dagskammta. Ísland sker sig úr í Evrópu fyrir litla notkun breiðvirkra sýklalyfja sem er jákvætt þar sem breiðvirk sýklalyf stuðla frekar að auknu sýklalyfjaónæmi.

Notkun sýklalyfja hjá dýrum jókst árið 2024, en fyrst og fremst vegna sýklalyfjagjafar í landeldi á bleikju gegn kýlaveikibróður. Sé notkun í bleikjueldi undanskilin hefur sýklalyfjanotkun hjá dýrum lítið breyst síðustu ár og Ísland er áfram meðal þeirra Evrópulanda sem minnst nota af sýklalyfjum fyrir dýr.

Sýklalyfjaónæmi hjá fólki og dýrum

Sýklalyfjaónæmi í bakteríum hjá fólki hér á landi er almennt lítið miðað við mörg ríki ESB/EES, þó aukning hafi orðið á vissum gerðum ónæmra sýkla. Sérstakar áhyggjur vekur aukning á karbapenemasa-myndandi Enterobacterales (CPE) á milli ára, en 18 einstaklingar greindust með CPE í fyrsta sinn árið 2024, sem er metfjöldi. Einnig hefur ónæmi gegn cíprófloxacíni hjá innlendum Campylobacter stofnum aukist síðustu ár.

Á árinu 2024 var framkvæmd sýnataka í kjúklingum í samræmi við reglugerð um vöktun á sýklalyfjaónæmi í dýrum og matvælum. Niðurstöður sýna töluverða aukningu á ónæmi samanborið við síðustu vöktunarlotu fyrir tveimur árum.

Ein heilsa og aðgerðaáætlun íslenskra stjórnvalda gegn sýklalyfjaónæmi

Sýklalyfjaónæmi er vaxandi alþjóðlegt vandamál og ein stærsta heilbrigðisógn sem heimurinn stendur frammi fyrir. „Ein heilsa“ er hugtak sem nær yfir heilbrigði fólks, dýra og umhverfis og á vel við í baráttunni gegn sýklalyfjaónæmi þar sem ónæmir sýklar berast greiðlega á milli manna, dýra/matvæla og umhverfis.

Hérlendis hafa stjórnvöld ákveðið að styrkja þverfaglega samvinnu um aðgerðir gegn sýklalyfjaónæmi og sumarið 2024 undirrituðu þrír ráðherrar opinbera aðgerðaáætlun gegn sýklalyfjaónæmi. Áætlunin sem byggir á Einnar heilsu nálgun nær til áranna 2025-2029 og inniheldur sex aðgerðir og fjölmörg verkefni.

Framtíðin

Almennt er staðan hvað varðar notkun sýklalyfja og útbreiðslu sýklalyfjaónæmis góð hérlendis en áframhaldandi vöktun og ábyrg notkun sýklalyfja eru nauðsynleg til að viðhalda þeim árangri. Miklar vonir eru bundnar við aðgerðaáætlun stjórnvalda og áframhaldandi stuðning við framkvæmd aðgerða gegn útbreiðslu sýklalyfjaónæmis.

Sóttvarnalæknir

Sjá nánar: