Ársskýrsla um sýklalyfjanotkun og sýklalyfjanæmi baktería hjá mönnum og dýrum á Íslandi 2023
24. september 2024
Ársskýrsla um sýklalyfjanotkun og -næmi hjá mönnum og dýrum fyrir árið 2023 er komin út en þetta er í tólfta sinn sem slík skýrsla er birt.
Skýrslan er gefin út í samstarfi við Matvælastofnun (MAST) sem leggur til þá kafla skýrslunnar sem fjalla um sýklalyfjanotkun dýra ásamt sýklalyfjanæmi sýkla sem tengjast matvælum og dýrum. Einnig lögðu Landspítali, Lyfjastofnun, Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum og Umhverfisstofnun til gögn í skýrsluna.
Ein heilsa: Sýklalyfjaónæmi er alþjóðleg og þverfagleg áskorun
Sýklalyfjaónæmi er vaxandi alþjóðlegt vandamál og ein stærsta heilbrigðisógn sem heimurinn stendur frammi fyrir. Sú hætta er raunveruleg að í framtíðinni verði ekki hægt að meðhöndla einfaldar og alvarlegar sýkingar með sýklalyfjum en það myndi hafa alvarlegar heilsufars- og efnahagslegar afleiðingar fyrir þjóðir heims.
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur lýst því yfir að sýklalyfjaónæmi sé ein helsta heilbrigðisógn sem steðjar að mannkyni í dag. „Ein heilsa“ er heildstæð sýn sem nær yfir heilbrigði fólks, dýra og umhverfis. Hugtakið á sérstaklega vel við í baráttunni gegn sýklalyfjaónæmi en ónæmir sýklar berast greiðlega á milli manna, dýra og umhverfis og þannig á milli landa.
Aðgerðaáætlun íslenskra stjórnvalda gegn sýklalyfjaónæmi
Hérlendis hafa stjórnvöld ákveðið að styrkja enn frekar þverfaglega samvinnu um sýklalyfjaónæmi. Fyrir tveimur árum var skipaður starfshópur um aðgerðir til varnar útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería. Starfshópurinn skilaði tillögum að aðgerðaáætlun í byrjun árs 2024 og í ágúst undirrituðu Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra, Bjarkey Ólsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra og Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfisráðherra, aðgerðaáætlun gegn sýklalyfjaónæmi. Áætlunin nær til áranna 2025-2029 og inniheldur sex aðgerðir og kostnaðarmat af framkvæmd þeirra 24 markmiða og 75 verkefna sem er forgangsraðað.
Notkun sýklalyfja og sýklalyfjaónæmi á Íslandi
Heildarsala sýklalyfja fyrir menn á Íslandi árið 2023 var svipuð sölu áranna 2019 og 2022 en sala var töluvert lægri árin 2020 og 2021 á meðan COVID-19 faraldurinn stóð sem hæst (enda var þá minna um aðrar sýkingar). Íslendingar nota enn meira af sýklalyfjum en aðrar Norðurlandaþjóðir en eru í meðallagi miðað við lönd ESB/EES.
Ísland hefur enn lágt hlutfall ónæmra baktería hjá mönnum miðað við mörg Evrópulönd. Árið 2023 fjölgaði þó tilkynntum tilfellum sýklalyfjaónæmra baktería á Íslandi miðað við síðustu ár, en 500 einstaklingar greindust með ESBL/AmpC-myndandi sýkla sem er algengasta gerð breiðvirkra betalaktamasamyndandi sýkla. Fjöldi MÓSA (Methicillin ónæmur Staphylococcus aureus) og VÓE (Vancómýcín ónæmir enterókokkar) tilkynninga jókst einnig árið 2023 en þá greindust 156 með MÓSA og 17 með VÓE.
Framtíðin
Þó staðan á Íslandi sé að mörgu leiti góð hvað varðar notkun sýklalyfja og sýklalyfjaónæmi er mikið starf óunnið. Miklar vonir eru bundnar við nýsamþykkta aðgerðaáætlun stjórnvalda og áframhaldandi stuðning stjórnvalda og lykilstofnana við þennan málaflokk.
Sjá nánar:
Sóttvarnalæknir