Fara beint í efnið
Embætti landlæknis Forsíða
Embætti landlæknis Forsíða

Embætti landlæknis

Árlegur alþjóðlegur baráttudagur gegn tóbaksnotkun 2023

31. maí 2023

Árlegur alþjóðlegur baráttudagur gegn tóbaksnotkun er í ár helgaður tóbaksræktun sem ógn við heilsu og fæðuöryggi

Alþjóðlegur baráttudagur gegn tóbaksnotkun 2023

Í tilefni af Degi án tóbaks leggur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin áherslu á að auka vitund í tóbaksræktarsamfélögum um kosti þess að hverfa frá ræktun á tóbaki og skipta yfir í sjálfbæra ræktun og bæta þar með fæðuöryggi og næringu. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hvetur þjóðir til að hætta styrkveitingum til tóbaksræktunar og nýta fremur fjármunina til að styðja bændur við að skipta út tóbaksræktun fyrir ræktun matvæla.

Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni hefur tóbaksiðnaðurinn unnið gegn tilraunum til að skipta út tóbaksræktun fyrir matvælaframleiðslu og þar með stuðlað að alþjóðlegri matvælakreppu. Lykilmælikvarðinn á árangur herferðarinnar verður fjöldi ríkisstjórna sem hætta niðurgreiðslum til tóbaksræktunar.

Skaðinn sem tóbaksnotkun veldur er vel þekktur en yfir 8 milljónir manna látast árlega af völdum tóbaksnotkunar. Það hefur dregið úr reykingum hér á landi undanfarna áratugi, bæði meðal karla og kvenna. Niðurstöður vöktunar frá árinu 2022 gefa til kynna að 9% fullorðinna reyki sígarettur. Þar af reyktu 6,2% daglega og 2,8% sjaldnar en daglega. Til samanburðar reyktu 10,1% árið 2021, 7,2% daglega og 2,9% sjaldnar en daglega. Samdrátturinn milli áranna 2021 og 2022 samsvarar því að um það bil tvö þúsund fullorðnir hafi hætt að reykja á síðastliðnu ári.

Margar þjóðir hafa sett sér það markmið að ná daglegum reykingum niður í 5% og nálgast Ísland óðum það hlutfall. Evrópusambandið hefur sett fram stefnumótandi markmið um tóbakslausa kynslóð fyrir árið 2040 (e. Tobacco-Free Generation in Europe where less than 5% of the population uses tobacco by 2040). Þessi markmiðasetning hefur verið nefnd endatafl (e. endgame) og er talin vera grundvöllur frekari aðgerða í tóbaksvörnum, svo sem að taka tóbak úr almennri sölu.

Tóbakslausir nikótínpúðar eru tiltölulega ný vara á markaði sem náð hefur mikilli útbreiðslu. Nikótín er ávanabindandi og því óæskilegt að ungt fólk byrji að nota nikótínpúða. Í júní árið 2022 var samþykkt breyting á lögum nr. 87/2018 um rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur, þar sem nikótínvörur á borð við tóbakslausa nikótínpúða voru felld inn í lögin. Meginefni laganna snýr að takmörkun á sýnileika á nikótínvörum, aldurstakmark og skilgreint hámark nikótíns í hverri vörueiningu. Þá eru hvers konar auglýsingar á nikótínvörum bannaðar.

Hægt er að fá aðstoð til að hætta notkun á tóbaki og nikótíni án kostnaðar í netspjalli Heilsuveru. Netspjall Heilsuveru er opið alla daga frá kl. 8 til 22.

Frekari upplýsingar veitir:
Viðar Jensson, verkefnisstjóri
hafsteinn.v.jensson@landlaeknir.is