Afgreiðsla umsókna um sérfræðileyfi í undirsérgreinum
8. janúar 2026
Embætti landlæknis hefur tekið ákvörðun um breytingu á afgreiðslu umsókna um sérfræðileyfi í undirsérgreinum. Ákvörðunin byggir á nýlegum úrskurði heilbrigðisráðuneytis og miðar að því að skýra og bæta málsmeðferðina. Breytingin á málsmeðferð tekur gildi strax og munu umsóknir sem beðið hafa afgreiðslu nú komast til meðhöndlunar.

Málið snýr að túlkun 8. greinar reglugerðar nr. 856/2023 um veitingu sérfræðileyfis á grundvelli náms erlendis. Samkvæmt nýlegum úrskurði heilbrigðisráðuneytis nr. 12/2025 er embættinu nú heimilt að meta hvort læknar sem lokið hafa sérnámi í undirsérgrein erlendis hafi ígildi sérfræðileyfis, jafnvel þótt formlegt sérfræðileyfi liggi ekki fyrir frá stjórnvöldum í viðkomandi landi. Áður en umræddur úrskurður féll var heimilt að veita sérfræðileyfi vegna náms erlendis ef (a) viðkomandi uppfyllti fyrirliggjandi marklýsingu hér á landi og (b) ef umsækjandi hefði fengið útgefið sérfræðileyfi í öðru landi. Með úrskurðinum varð ljóst að embættinu var (c) heimilt að veita sérfræðileyfi á grundvelli náms í öðru landi þar sem ekki eru veitt sérfræðileyfi ef hægt er að jafna námi umsækjanda og síðar störfum hans í landinu við útgefið sérfræðileyfi. Við þær aðstæður ber að afla umsagnar.
Breytingin felur þannig í sér að embættið mun leita til sérfræðinga í viðkomandi sérgreinum um mat á hæfi umsækjenda. Þessir sérfræðingar skulu búa yfir þekkingu á alþjóðlegum viðmiðum og eiga því að geta metið hvort nám og reynsla umsækjanda jafngildi því sem krafist er hér á landi sem og hvort umsækjandi hafi ígildi sérfræðileyfis erlendis frá.
Embættið telur þörf á að gera breytingar á reglugerð nr. 856/2023 til að skýra þau skilyrði sem embættið vinnur út frá í þessum málum, til dæmis þannig að við ofannefnda 8. gr. verði bætt sérákvæði varðandi skilyrði fyrir veitingu sérfræðileyfis í undirsérgrein á grundvelli náms í öðru landi.
Embættið áréttar einnig að opinber umræða eða umfjöllun í fjölmiðlum hefur á engan hátt haft áhrif á ofangreinda breytingu eða afgreiðslu umræddra umsókna.
Frekari upplýsingar
Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður landlæknis
kjartan.h.njalsson@landlaeknir.is