Fara beint í efnið

Um gildistíma COVID-19 bólusetningavottorða á landamærum innan Evrópu

18. janúar 2022

Þann 1. febrúar nk. tekur gildi ákvörðun framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins (European Commission; EC) um að COVID-19 bólusetningaskírteini fái 9 mánaða gildistíma frá grunnbólusetningu fyrir 16 ára og eldri. Forritin sem lesa skírteinin á landamærum munu reikna gildistímann út frá dagsetningu síðasta skammts grunnbólusetningar. Ef lengra er liðið en 9 mánuðir frá grunnbólusetningu mun vottorðið teljast ógilt á landamærum alveg sama hvað stendur á því.

Landlæknir logo - Fréttamyndir

ENSKA/ENGLISH

Þann 1. febrúar nk. tekur gildi ákvörðun framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins (European Commission; EC) um að COVID-19 bólusetningaskírteini fái 9 mánaða gildistíma, frá grunnbólusetningu, fyrir 16 ára og eldri. Forritin sem lesa skírteinin á landamærum munu reikna gildistímann út frá dagsetningu síðasta skammts grunnbólusetningar. Ef lengra er liðið en 9 mánuðir frá grunnbólusetningu mun vottorðið teljast ógilt á landamærum alveg sama hvað stendur á því.

Sumar Evrópuþjóðir nota þessi bólusetningaskírteini í innanlandsaðgerðum, s.s. til að fá aðgang að viðburðum, en þá geta tímamörk á gildistíma eftir grunnbólusetningu verið mun þrengri, allt niður í tvo mánuði ef grunnbólusetning var með bóluefni Janssen. Mikilvægt er að ferðamenn kynni sér slíkar reglur á áfangastöðum erlendis.

Örvunarskammtur fellir niður þennan gildistíma, þ.e. ekki verður að sinni skilgreindur gildistími á örvunarskammti í smáforritum sem lesa QR kóða á bólusetningaskírteinum skv. Evrópusamstarfinu. Við örvunarskammt mun gildistími íslenskra vottorða, sem fram kemur á læsilegri útgáfu vottorðs, framlengjast um 9 mánuði (í stað 12 mánaða nú) í kjölfar breytinganna á gildistíma grunnbólusetningar í QR kóðanum. Ef tilefni er til að mæla með fjórða skammti fyrr getur verið að sá tími verði styttur.

Við þessar breytingar verður útgáfu bólusetningavottorða á grundvelli stakrar bólusetningar með Janssen hætt á Íslandi, þar sem ein Janssen bólusetning er ófullnægjandi til að draga verulega úr smithættu eða alvarlegum veikindum vegna delta eða omikron afbrigða. Bóluefni Janssen verður áfram notað með takmörkuðum hætti: fyrir einstaklinga sem ekki þola mRNA bóluefni, á meðan aðrir kostir eru ekki í boði.

Nýtt vottorð verður aðgengilegt í Heilsuveru 1. febrúar 2022. Til að sýnilegur texti sé í samræmi við úrlestur smáforrita sem notuð eru á landamærum er mælt með því að þeir sem þurfa að ferðast með bólusetningavottorð 1. febrúar eða síðar sæki sér nýtt vottorð við fyrsta tækifæri eftir þá dagsetningu. Ef rafræn skilríki nýtast ekki til að sækja vottorð beint í Heilsuveru getur heilsugæslan sem viðkomandi er skráður á sent vottorð í tölvupósti eftir 1. febrúar.

Sóttvarnalæknir