Fara beint í efnið
Embætti landlæknis Forsíða
Embætti landlæknis Forsíða

Embætti landlæknis

Sóttvarnalæknir mælir með þriðja skammti fyrir alla 16 ára og eldri þegar 6 mánuðir eru frá grunnbólusetningu gegn COVID-19

5. nóvember 2021

COVID-19 tilfellum heldur áfram að fjölga hér á landi og er farið að bera á auknum alvarlegum veikindum, innlögnum og aukinni þörf fyrir gjörgæslumeðferð.

Landlæknir logo - Fréttamyndir

[English - Polish - Spanish - Lithuanian]

COVID-19 tilfellum heldur áfram að fjölga hér á landi og er farið að bera á auknum alvarlegum veikindum, innlögnum og aukinni þörf fyrir gjörgæslumeðferð. Staðan er nú sú að gagnsemi örvunarbólusetningar til að efla varnir einstaklings og samfélagsins er nú orðin mjög klár, þátttaka hefur verið fremur dræm meðal hópa sem skilgreindir hafa verið í forgangi fyrir þriðja skammt miðað við þátttöku í grunnbólusetningu en á sama tíma eru fleiri og fleiri sem ná sex mánaða markinu og fá ekki örvunarskammt þótt þeir óski eftir því.

Því hefur sóttvarnalæknir ákveðið að allir 16 ára og eldri geti fengið örvunarskammt þegar u.þ.b. 6 mánuðir eru liðnir frá grunnbólusetningu. Heilsugæslan vinnur að því að auka afkastagetu í framkvæmd bólusetningar en nóg bóluefni er til eða væntanlegt til að bólusetja alla sem ná þessum tímamótum fyrir áramót. Til hagræðingar verður lágmarkstíminn stilltur á 5 mánuði þar sem mjög margir ná 6 mánaða markinu milli jóla og nýárs. 70 ára og eldri og ónæmisbældir einstaklingar skv. skilmerkjum sóttvarnalæknis óháð aldri geta þó fengið þriðju bólusetninguna þegar 3 mánuðir eru liðnir frá grunnbólusetningu vegna aukinnar áhættu á ófullnægjandi svari við tveimur bólusetningum.

Bóluefni frá Pfizer/BioNTech verður notað í þessar bólusetningar almennt en til er bóluefni frá Moderna sem má einnig nota í þessum tilgangi skv. fylgiseðli, en þá hálfur skammtur miðað við það sem er notað í grunnbólusetningu. Fyrir karlmenn 16–39 ára er mælt með að nota frekar Pfizer bóluefni vegna meiri óvissu um hversu mikil hætta er á hjartabólgu þegar bóluefni Moderna er notað í þessum skammti við örvunarbólusetningu.

Gögn um örvunarbólusetningar 12–15 ára barna eru ekki fullnægjandi til að mæla með almennum örvunarbólusetningum þess aldurshóps eftir 6 mánuði, að svo komnu máli.

Eftirfarandi hópar ættu ekki að þiggja örvunarbólusetningu nema að höfðu samráði við lækni:

  1. Einstaklingar með sjálfsónæmissjúkdóma sem eru með virkan sjúkdóm þegar örvunarbólusetning er ráðlögð.

  2. Einstaklingar með sjálfsónæmissjúkdóma sem fengu versnun einkenna eða ný, alvarleg einkenni innan 2ja vikna frá COVID-19 grunnbólusetningu.

  3. Einstaklingar sem fengu lífshættulegar aukaverkanir við grunnbólusetningu, s.s. bráðaofnæmi.

Sóttvarnalæknir