Fara beint í efnið

Menntaskólinn að Laugarvatni handhafi Gulleplisins 2018

3. maí 2018

Mennta- og menningarmálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, afhenti í dag Menntaskólanum að Laugarvatni Gulleplið 2018, fyrir framúrskarandi heilsueflingarstarf framhaldsskóla. Sóttvarnalæknir, Þórólfur Guðnason afhenti skólanum smokkasjálfsala að gjöf við sama tilefni.

Landlæknir logo - Fréttamyndir

Mennta- og menningarmálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, afhenti í dag Menntaskólanum að Laugarvatni Gulleplið 2018, fyrir framúrskarandi heilsueflingarstarf framhaldsskóla.

Sóttvarnalæknir, Þórólfur Guðnason afhenti skólanum smokkasjálfsala að gjöf við sama tilefni. Allir framhaldsskólar landsins, þrjátíu og einn talsins, fá afhentan slíkan sjálfsala á næstu dögum.

Er þetta í sjöunda sinn sem Gulleplið er veitt heilsueflandi framhaldsskóla og var viðurkenningin að þessu sinni tileinkuð framúrskarandi starfi á sviði jafnréttis og kynheilbrigðis.

Samtals bárust átta umsóknir frá framhaldsskólum landsins og var það í höndum dómnefndar á vegum Embættis landlæknis að fara yfir og meta umsóknirnar. Niðurstaða nefndarinnar var að Menntaskólinn að Laugarvatni hlyti viðurkenninguna og tóku fulltrúar nemenda í jafnréttisráði skólans við viðurkenningunni fyrir hönd skólans. Þau eru skólaráðsfulltrúarnir Ingunn Ýr Scram, Þórný Þorsteinsdóttir og Þórarinn Guðni Helgason í jafnréttisráði.

Allir nemendur í kynjafræði

Allir nemendur Menntaskólans að Laugarvatni taka námskeið í kynjafræði og læra m.a. að beita hugtökum kynjafræðinnar, greina samfélagið með kynjagleraugum og vera meðvituð um réttindi einstaklingsins þegar kemur að jafnréttismálum. Saga jafnréttisbaráttunnar, kynheilbrigði og heilbrigð samskipti kynjanna eru kynnt til sögunnar þar sem kynferðisleg áreitni, kynferðislegt ofbeldi, stafrænt ofbeldi, klámvæðing, mörk, samþykki og mikilvægi samskipta í kynlífi eru meðal efnistaka. Nemendur unnu einnig á skólaárinu ýmis verkefni sem tengjast jafnréttisvakningu.

Jafnréttisnefnd og jafnréttisfulltrúi starfa innan nemendafélags skólans og vinna þau saman að jafnréttisáætlun og markmiðum, ásamt því að fylgja þeim eftir. Auk þess hafa verið haldin erindi innan skólans um m.a. samskipti, virðingu, fötlunarfordóma og hinsegin málefni. Námskeið á vegum samtaka um líkamsvirðingu var haldið í vetur og farið var í forvarnarferð. Jafnréttisnálgun er bæði nýtt meðal kennara og nemenda.

Allir framhaldsskólar landsins Heilsueflandi framhaldsskólar

Heilsueflandi framhaldsskóli hófst árið 2009 og nú eru allir framhaldsskólar landsins sem taka þátt en þeir eru nú 31 talsins. Nánar um Heilsueflandi framhaldsskóla.

Verkefnið lýtur að fjórum meginviðfangsefnum: Næringu, hreyfingu, geðrækt og lífsstíl. Markmið framhaldsskólanna mótast af því viðhorfi að heilsueflandi umhverfi bæti líðan nemenda, stuðli að bættum námsárangri og dragi úr brottfalli.

Áður hafa Flensborgarskólinn í Hafnarfirði, Verzlunarskóli Íslands, Fjölbrautaskóli Vesturlands, Fjölbrautaskóli Suðurlands, Borgarholtsskóli og Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ hlotið viðurkenninguna.