Leiðrétting vegna fréttar um ófrjósemisaðgerðir
30. janúar 2018
Í Fréttablaðinu þann 15. janúar síðastliðinn var því haldið fram að lög um aldurstakmörk við ófrjósemisaðgerðir væru ekki virt þegar um karlmenn væri að ræða.
Í Fréttablaðinu þann 15. janúar síðastliðinn (sjá frétt) var því haldið fram að lög um aldurstakmörk við ófrjósemisaðgerðir væru ekki virt þegar um karlmenn væri að ræða. Gildandi lög kveða á um 25 ára aldur fyrir bæði kynin.
Embætti landlæknis hefur kannað ófrjósemisaðgerðir frá árinu 2000, til og með 2017. Samkvæmt gögnum embættisins eru engar vísbendingar til þess að lögum hafi ekki verið framfylgt. Í þeim örfáu tilfellum sem ófrjósemisaðgerðir hafa verið gerðar á einstaklingum undir 25 ára aldri, hafa þær verið gerðar samkvæmt þeim undanþágum sem kveðið er á um í lögunum.
Í þessu sambandi má benda á að starfshópur skilaði skýrslu til velferðarráðuneytisins í nóvember 2016, þar sem mælt var með því að aldurstakmörk við ófrjósemisaðgerðir yrðu lækkuð til samræmis við lögaldur. Embætti landlæknis var þessu sammála. Núgildandi lögum hefur þó ekki verið breytt.
Landlæknir