Fara beint í efnið

Helstu breytingar í ávísunum ávanabindandi lyfja frá 2016 til 2017 á Íslandi

10. janúar 2018

Embætti landlæknis hefur eftirlit með ávísunum ávanabindandi lyfja. Lyfin eru gagnleg séu þau rétt notuð en geta jafnframt verið varasöm ef þau eru tekin í of stórum skömmtum í of langan tíma eða með öðrum lyfjum eða efnum.

Landlæknir logo - Fréttamyndir

Embætti landlæknis hefur eftirlit með ávísunum ávanabindandi lyfja. Lyfin eru gagnleg séu þau rétt notuð en geta jafnframt verið varasöm ef þau eru tekin í of stórum skömmtum í of langan tíma eða með öðrum lyfjum eða efnum.

Það gildir um ávanabindandi lyf eins og flest önnur lyf að margir þættir geta haft áhrif á hversu mikið er notað af þeim en Íslendingar nota meira af sumum þessara lyfja en flestar aðrar þjóðir.

Mikil notkun endurspeglast að mestu leyti af fjölda þeirra sem fá ávísað en notkun sterkra verkjalyfja er mun almennari hér á landi en t.d. hjá öðrum Norðurlandaþjóðum (sjá töflu 1). Á Íslandi eru 57% fleiri notendur ópíóíða borið saman við Noreg. Orsakir geta tengst þeirri fólksfjölgun sem hefur verið á Íslandi undanfarin ár og meðalaldur er að hækka sem kallar á meiri notkun lyfja. Einnig hefur átt sér talsverð umræða um takmörkuð úrræði í meðferð þeirra sem glíma við geðræn vandamál eða langvarandi verki.

Sú staðreynd að ákveðið hlutfall ávísaðra ávanabindandi lyfja ratar í ólöglega sölu veldur áhyggjum og skapar aukinn vanda hjá fólki sem á við fíkn að stríða. Fáar þjóðir búa við samskonar ástand þar sem lögleg lyf eru misnotuð jafn mikið af fólki með alvarlegan fíknivanda eins og þekkist á Íslandi (sjá töflu 1).

Sumt hefur lagast, eins og t.d. notkun algengra svefnlyfja, en annað hefur versnað. Það er sérstakt áhyggjuefni að ávísanir á oxýkódon aukast milli áranna 2016 og 2017 (sjá töflu 2), því alltaf er hætta á að einhver hluti þess sem er ávísað fari í ólöglega sölu. Það gildir um oxýkódon eins og mörg önnur ávanabindandi lyf að allt of mörg dæmi eru um einstaklinga sem fá lyfin í of langan tíma þar sem viðbótarvandi þeirra er orðinn þolmyndun og ávanabinding.

Almennt eru íslenskir læknar á varðbergi gagnvart misnotkun og flestir læknar ávísa ávanabindandi lyfjum í litlum mæli. Vandinn er því aðeins bundinn við tiltölulega fámennan hóp lækna.

Lyfjateymi Embættis landlæknis

Magnús Jóhannsson, læknir, Jón Pétur Einarsson og Ólafur B. Einarsson sérfræðingur

Heimildir:

  1. G.D. Bjarnadottir el al. Prevalent Intravenous Abuse of Methylphenidate Among Treatment-Seeking Patients With Substance Abuse Disorders: A Descriptive Population-Based Study. J Addict Med. 2015 May; 9(3): 188–194.

  2. Lyfjagagnagrunnur Embættis landlæknis

  3. Socialstyrelsen, Svíþjóð, Reseptregisteret, Noregi og Medstat, Danmörku.