Fara beint í efnið
Embætti landlæknis Forsíða
Embætti landlæknis Forsíða

Embætti landlæknis

Health at a Glance 2017 – Staða Íslands í samanburði við OECD löndin

30. janúar 2018

Í fyrsta kafla skýrslu OECD Health at a Glance 2017 er varpað ljósi á stöðu OECD landanna hvað varðar heilbrigði og árangur heilbrigðiskerfisins.

Landlæknir logo - Fréttamyndir

Í fyrsta kafla skýrslu OECD Health at a Glance 2017 er varpað ljósi á stöðu OECD landanna hvað varðar heilbrigði og árangur heilbrigðiskerfisins. Fimm atriði eru skoðuð: Heilbrigði, áhættuþættir heilbrigðis, aðgengi að heilbrigðisþjónustu, gæði og árangur þjónustunnar og fjármagn og mannauður í heilbrigðiskerfinu.

Heilbrigði

Skoðaðir eru fimm vísar, lífslíkur karla og kvenna, meðalævilengd frá 65 ára aldri, dánartíðni vegna hjarta- og æðasjúkdóma og tíðni heilabilunar.Ísland hefur mestar lífslíkur hjá körlum eða 81,2 ár. Að öðru leyti liggur Ísland í kringum OECD meðalatalið. Meðaltal fyrir fjóra fyrstu vísana hefur batnað verulega hjá OECD löndunum síðan 2005. Tíðni heilabilunar eykst hjá þeim löndum sem hafa mesta meðalævilengd.

Þess ber að gæta að meðalævilengd þjóða hefur takmarkaða fylgni við gæði heilbrigðisþjónustunnar, þar eru aðrir þættir sem hafa meiri áhrif.

Áhættuþættir heilbrigðis

Hér eru skoðaðir fjórir áhættuþættir, daglegar reykingar, ofnotkun áfengis, offita (BMI >30) og loftmengun.

Ísland kemur vel út hvað varðar reykingar og loftmengun en er að öðru leyti nálægt OECD meðaltali.

Aðgengi að heilbrigðisþjónustu

Hér eru skoðaðir fjórir vísar, hversu stórt hlutfall landsmanna hefur aðgengi að heilbrigðisþjónustu, hluti kostnaðar fyrir heilbrigðisþjónustu af heildarútgjöldum fjölskyldna, biðtími eftir augasteinsaðgerðum og læknisheimsóknir sem hætt er við vegna kostnaðar.Ísland er nálægt OECD meðaltali hvað varðar tvo fyrstu vísana en upplýsingar vantar um þá tvo síðustu. Við vitum þó að biðtími eftir augasteinsaðgerðum er umtalsvert lengri hér á landi en meðaltal OECD landanna sem er 121 dagar.

Gæði og árangur þjónustunnar

Hér eru skoðaðir fimm vísar, innlagnir á sjúkrahús vegna asthma/krónískra lungnasjúkdóma, ávísun sýklalyfja, dauðsföll af völdum hjartaáfalls, lífshorfur eftir ristilkrabbamein og fæðingaráverkar.

Ísland liggur nálægt OECD meðaltali hvað varðar fyrstu fjóra vísana en upplýsingar vantar um fæðingaráverka.

Fjármagn og mannauður

Hér eru skoðaðir fjórir vísar, fjármagn til heilbrigðismála á hvern íbúa, fjöldi lækna á íbúa, fjöldi hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða samtals á íbúa og fjöldi sjúkrahúslegurýma á hvern íbúa.

Ísland er meðal þeirra landa sem hefur flesta hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða samanlagt. A.ö.l er Ísland nálægt OECD meðaltali. Meðaltal OECD ríkjanna hvað varðar útgjöld, fjölda lækna og hjúkrunarfræðinga/sjúkraliða hefur aukist frá 2005 meðan fjöldi legurýma hefur minnkað verulega á sama tíma.

Við athugun á gæðavísum og árangri heilbrigðisþjónustunnar í OECD löndunum kemur í ljós að í langflestum tilfellum hafa gæði og árangur þjónustunnar batnað frá árinu 2005. Ísland er í flestum tilvikum nálægt meðaltali OECD landanna en hefur náð góðum árangri í meðferð á sykursýki ef tekið er mið af þeim gæðavísum sem notaðir eru í skýrslunni. Ísland hefur löngum haft góðan árangur í meðferð brjóstakrabbameins og ristilkrabbameins. Svo er enn, en árangurinn hefur ekki breyst síðan 2005. Í tilfelli brjóstakrabbameins hjá konum hefur dánartíðnin aukist frá 2005, gagnstætt þróun í öðrum ríkjum OECD. Þá má nefna að Ísland liggur töluvert undir OECD meðaltali varðandi bólusetningar eins árs barna og á það sérstaklega við um bólusetningu gegn mislingum.

Skýrsla OECD Health at a Glance 2017 inniheldur margvíslegar upplýsingar sem of langt mál yrði að rekja. Tilgangur þessarar samantektar er að vekja athygli á stöðu Íslands sem löngum hefur státað af góðum árangri heilbrigðisþjónustunnar. Niðurstöðurnar fyrir 2017 benda hins vegar til þess að Ísland sé að hafna í þeim hópi sem liggur nær meðaltali en toppi OECD landa. Niðurstöðurnar ættu að vekja heilbrigðisyfirvöld til alvarlegrar umhugsunar um þróun íslenska heilbrigðiskerfisins.

Landlæknir