Fara beint í efnið

Ekki fleiri staðfest mislingatilfelli – bóluefni komið í dreifingu

15. mars 2019

Á samráðsfundi sóttvarnayfirvalda í morgun, föstudaginn 15.mars, kom fram að ekki hafa greinst ný tilfelli mislinga. Tíu þúsund skammtar af bóluefni eru komnir í dreifingu á heilbrigðisstofnanir um land allt.

Landlæknir logo - Fréttamyndir

Á samráðsfundi sóttvarnayfirvalda í morgun, föstudaginn 15.mars, kom fram að ekki hafa greinst ný tilfelli mislinga. Tíu þúsund skammtar af bóluefni eru komnir í dreifingu á heilbrigðisstofnanir um land allt. Nánari upplýsingar varðandi framkvæmd bólusetninganna verður hægt að finna á heimasíðum einstakra heilsugæslustöðva þegar þær liggja fyrir.

Bólusetningar geta valdið mislingalíkum útbrotum í um það bil 5% tilfella. Útbrotin og önnur möguleg einkenni eru oftast væg og eru mjög litlar líkur á smiti til annarra í slíkum tilfellum.

Frekari upplýsingar varðandi mislinga eru veittar á netspjalli, heilsugæslunnar, www.heilsuvera.is og í síma 1700.

Framkvæmd bólusetninga

Sóttvarnalæknir hefur í samráði við umdæmis- og svæðislækna ákveðið eftirfarandi:

  1. Á svæðum þar sem mislingar hafa verið að greinast eins og á Austfjörðum og á höfuðborgarsvæðinu þá verður lögð áhersla á að allir/flestir óbólusettir á aldrinum 6 mánaða til 49 ára (fæddir eftir 1970) fái eina bólusetningu. Bólusettir einstaklingar á aldrinum 6-12 mánaða þurfa bólusetningu nr. 2 við 18 mánaða aldur. Eldri en 12 mánaða þurfa bara eina bólusetningu (og svo aftur við 12 ára).

  2. Útsettir einstaklingar fái bólusetningu innan 72 klst. eftir útsetningu fyrir mislingum til að minnka líkur á veikindum.

  3. Útsettir einstaklingar og náinn umgangshópur þeirra sem fer í sóttkví fái bólusetningu jafnvel þó að þeir hafi verið bólusettir áður.

  4. Ekki á að bólusetja einstaklinga eldri en 49 ára (fæddir fyrir 1970) þar sem miklar líkur eru á að þeir hafi fengið mislinga á sínum tíma.

  5. Á svæðum þar sem mislingar hafa ekki greinst er mælt með bólusetningu óbólusettra einstaklinga 12 mánaða og eldri (ekki 6-12 mánaða).

  6. Ekki er talin ástæða til að bólusetja börn yngri en 12 mánaða sérstaklega vegna ferðalaga erlendis, nema í undantekningartilvikum til landa þar sem mislingar eru algengir en eftirfarandi 10 lönd eru með hæstu tíðni mislinga skv. upplýsingum frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni: Madagaskar, Úkraína, Indland, Brasilía, Filipseyjar, Venesúela, Taíland, Pakistan, Yemen og Ísrael.

  7. Með ofangreindum tilmælum er ekki verið að breyta almennum bólusetningum á Íslandi. Reglubundnar bólusetningar gegn mislingum eru áfram við 18 mánaða aldur og seinni sprauta við 12 ára aldur.

  8. Rétt er að árétta að staðfest eggjaofnæmi er ekki frábending gegn bólusetningu nema ef viðkomandi er með sögu um lífshættuleg ofnæmisviðbrögð.

Sóttvarnalæknir