Vegna læknamönnunar á heilsugæslustöðinni í Ólafsvík
23. nóvember 2022
Erfiðlega hefur gengið að manna stöðu læknis í Ólafsvík undanfarið. Það vantaði lækni í síðustu viku en læknir fékkst til að vera á vakt um liðna helgi.
Nú er það aftur svo að enginn hefur fengist til að vinna þessa viku.
Frekar stuttur fyrirvari var til að fá lækni þessa viku en þrátt fyrir nærri þriggja mánaða fyrirvara á fjarverunni í síðustu viku tókst ekki að fá lækni.
Læknir í Grundarfirði sinnir bakvakt fyrir Ólafsvík en auk þess eru ávallt tveir sjúkraflutningamenn á bakvakt til að sinna bráðtilvikum. Læknar í Búðardal og í Stykkishólmi hafa komið til aðstoðar með símaráðgjöf og annast lyfjaendurnýjanir. Þá hefur læknir í Búðardal auk þess tekið að sér að vera hjúkrunarfræðingi í Ólafsvík til stuðnings og ráðgjafar í gegnum síma en mikilvægt að geta haft samvinnu um fjaraðstoð í aðstæðum sem þessum.
Beðist er velvirðingar á þeim óþægindum sem íbúar í Snæfellsbæ hafa orðið fyrir undanfarið vegna læknaskorts og kvartanir sem borist hafa frá íbúum síðustu daga eru skiljanlegar.
Ekki er annað vitað en þjónustan verði með venjubundnum hætti í næstu viku.