Samstarfsyfirlýsing HVE, SSV og heilbrigðisráðuneytis undirrituð
15. ágúst 2025
Í framhaldi af fundi ríkisstjórnarinnar í Stykkishólmi í gær undirrituðu HVE, Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi (SSV) og heilbrigðisráðherra samstarfsyfirlýsingu sem felur í sér að samstarfsaðilar munu vinna að því að laða að aukinn mannauð og gera starfsstöðvar HVE og búsetu á Vesturlandi að eftirsóknarverðum valkosti fyrir heilbrigðisstarfsfólk.

Þetta verkefni er framhald af góðu samstarfi sem SSV og HVE hafa átt undanfarin ár og hófst við undirbúning Velferðarstefnu Vesturlands árið 2018 og síðan verkefni í tengslum við Sóknaráætlun Vesturlands 2020-2024. Mikilvægt er að heilbrigðisstofnanir, sveitarstjórnir og stjórnvöld eigi í góðu samstarfi og vinni saman að velferð íbúanna.
Markmið verkefnisins er:
Að tryggja að allir íbúar á Vesturlandi hafi gott aðgengi að heilbrigðisþjónustu og skilgreindri sérfræðingsþjónustu.
Að taka höndum saman og vinna að því að laða vel menntað og hæfileikaríkt starfsfólk til starfa á öllum starfsstöðvum HVE á Vesturlandi.
Að nýta ívilnanir Menntasjóðs til þess að laða vel menntað og hæfileikaríkt starfsfólk til starfa á starfsstöðvum HVE á Vesturlandi þar sem ívilnanir eru í gildi.
Hlutverk HVE er:
Að allar starfsstöðvar HVE séu eftirsóknarverður vinnustaður.
Að HVE tryggi gott vinnuumhverfi og góðan aðbúnað starfsfólks og þjónustuþega á öllum starfsstöðvum.
Að HVE tryggi íbúum heilbrigðisþjónustu með gæði og öryggi í fyrirrúmi.
Að HVE sé virkur þátttakandi í menntun heilbrigðisstarfsfólks.
Hlutverk sveitarfélaga og SSV er:
Að tryggja aðgengi að leikskólum og frístund barna á grunnskólaaldri.
Að veita upplýsingar um stöðu á vinnumarkaði sem nýst geta maka og aðgengi að samvinnurýmum.
Að veita upplýsingar um þjónustu í sveitarfélaginu, helstu tækifæri til afþreyingar og stöðu á húsnæðismarkaði.
Að vinna markvisst að því að auka aðdráttarafl sveitarfélaganna.
