Gjafir til heilsugæslustöðvarinnar í Borgarnesi
23. október 2024
Heilsugæslustöðin í Borgarnesi er þeirrar gæfu aðnjótandi að eiga marga velunnara og nýlega tóku Oddný Eva Böðvarsdóttir yfirhjúkrunarfræðingur, Hildigunnur Þórsdóttir heimilislæknir og Rósa Marinósdóttir fyrrverandi yfirhjúkrunarfræðingur formlega við gjöfum frá þremur góðgerðarfélögum.
Krabbameinsfélag Borgarbyggðar færði heilsugæslunni í júní s.l. kvennskoðunarbekk sem kemur sér mjög vel fyrir mæðravernd og krabbameinsskoðanir hjá konum á svæðinu.
Stjórnarkonur í Krabbameinsfélagi Borgarfjarðar eru Kolbrún Sveinsdóttir, Ingibjörg Inga Guðmundsdóttir, Helga Jónsdóttir, Guðlín Erla Kristjánsdóttir og Hafdís Brynja Guðmundsdóttir. Þær þrjár fyrst nefndu afhentu gjöfina formlega.
Kvenfélagið 19.júní starfar í Borgarfirði og hefur það að markmiði að sinna mannúðar- og velferðarmálum. Félagið gaf heilsugæslunni í Borgarnesi blóðtöku- og lyfjagjafastól sem nú þegar hefur verið vel nýttur. Hildur Traustadóttir formaður kvenfélagsins ásamt Sigríði Ásu Guðmundsdóttur afhentu bekkinn formlega.
Lionsklúbburinn Agla samanstendur af um 18 konum? og rennur allur ágóðu fjáraflana klúbbsins til góðra verka. Lionsklúbburinn færði heilsugæslunni lyfjadælu og það voru Gréta Björgvinsdóttir, Ingibjörg Hargrave og María Eyþórsdóttir afhentu gjöfina formlega fyrir hönd Lionskvenna. Lyfjadælan ásamt lyfjagjafastólnum gerir það að verkum að heilsugæslan getur boðið sínum skjólstæðingum að þiggja meðferð í heimahéraði í stað þess að þurfa að keyra til dæmis á Landspítalann í reglulegar lyfjagjafir sem er mikill tímasparnaður og aukin lífsgæði fyrir þá einstaklinga.
Heilsugæslan er afar þakklát sínum velunnurum og starfsemin væri á annan hátt ef ekki væri fyrir hug þeirra frábæru góðgerðafélaga sem hafa verið að styrkja stöðina með ýmsum tækjum.