Vignir barnalæknir á HSU kynnir Kraftmiklir krakkar á Heilbrigðisþingi
23. nóvember 2025
Vignir Sigurðsson, barnalæknir á Heilbrigðisstofnun Suðurlands (HSU), kynnti á Heilbrigðisþingi verkefnið Kraftmiklir Krakkar, lífstílsmóttöku fyrir börn með offitu og foreldra þeirra.

Vignir að kynna erindið á Heilbrigðisþinginu
Á HSU leiðir Vignir teymi hjúkrunarfræðinga og lækna sem hefur þróað verkefnið Kraftmiklir Krakkar, þar sem lögð er áhersla á þverfaglega lífstílsmeðferð og stuðning við börn og fjölskyldur þeirra. Rannsóknarhluta verkefnisins er nú lokið og von er á frekari niðurstöðum á næstu mánuðum. Innleiðing verklagsins og áframhaldandi lífstílsmeðferð eru þegar hafin á heilsugæslum HSU.
Offita og fylgisjúkdómar hjá börnum eru brýnt verkefni í heilbrigðiskerfinu. Tíðnin hefur aukist á undanförnum áratugum og því sé ljóst að fleiri þurfi að koma að þjónustu fyrir börn með offitu og fjölskyldur þeirra, segir Vignir aðspurður um mikilvægi þess að kynna verkefni á þessum vettvangi.
Hann segir jafnframt mikinn heiður felast í því að fá að fjalla um verkefnið á Heilbrigðisþinginu; þar opnist vettvangur þar sem þau nái til margra sem taka þátt í stefnumótun innan heilbrigðiskerfisins, og vonir standi til að það leiði til frekari samvinnu, samtals og innleiðingar víðar en á HSU.
Viðtökurnar á þinginu voru afar jákvæðar og fékk verkefnið góðan hljómgrunn. Vignir segir að allir hafi verið sammála um mikilvægi þess að tryggja börnum bestu mögulegu heilsu og að verkefni á borð við Kraftmikla Krakka séu mikilvægur liður í því að efla heilsu barna til framtíðar.
