Umbótasinnaði hjúkrunarfræðingurinn sem hætti við að verða enskukennari... en væri líka til í að vinna á bar í Portúgal
18. desember 2024
HSU á Selfossi // Kolbrún Gunnarsdóttir, deildarstjóri bráðamóttöku
Viðmælandi okkar að þessu sinni er Kolbrún Gunnarsdóttir, deildarstjóri bráðamóttöku Heilbrigðisstofnunar Suðurlands (HSU) á Selfossi. Fastráðið starfsfólk þar er 44 talsins og samanstendur af sjúkraliðum, hjúkrunarfræðingum og læknum, auk þess sem framúrskarandi nemar í þessum þremur fögum starfa einnig á móttökunni. Læknar sem koma tímabundið á bráðamóttökuna á vaktir í verktöku eru um 30 til viðbótar. Kolbrún lærði upphaflega ensku og ætlaði sér að verða kennari, en vatt kvæði sínu í kross á hjúkrunarheimilinu Sóltúni þar sem hún varð hugfangin af hjúkrun. Hún brennur fyrir umbótastarfi á deildinni og segir mannskapinn þar samhentan og eldhressan.
HUMARVINNSLA OG SJOPPUGELLA
Kolbrún fæddist árið 1989 á Selfossi og gekk menntaveginn í grunnskólanum í Þorlákshöfn, Fjölbrautaskóla Suðurlands og Háskóla Íslands. Hún á að baki glettilega fjölbreyttan starfsferil þrátt fyrir ungan aldur. ,,Þar koma til dæmis við sögu humarvinnsla og fiskvinnsla, ásamt því sem ég var bæði sjoppugella og pylsusali í Laugardal, en líka sólbaðsstofustarfsmaður! Í heilbrigðisgeiranum eru það hjúkrunarheimilið Sóltún, bæklunarskurðdeild B5 og barnadeild 22ED. Síðan var ég teymisstjóri í heimahjúkrun í Reykjavík og deildarstjóri á íbúðakjarna fyrir fatlaða í Þorlákshöfn. Nú er ég hér á bráðamóttökunni."
DVERGHAMSTURINN SPRETTUR
Maður Kolbrúnar er Andri Helgason, mannauðsstjóri hjá Garðlist, og saman eiga þau dæturnar Alexöndru Hrafneyju 7 ár og Arneyju Helgu 4 ára. Gæludýr fjölskyldunnar er dverghamsturinn Sprettur. Við forvitnumst um lífið eftir vinnu. ,,Tíminn utan vinnustaðarins fer að miklu leyti í börnin mín og stórfjölskylduna. Ég nýt þess líka að fara í ræktina og sund, ferðast um landið með hjólhýsið og kíkja út fyrir landsteinana. En svo hef ég gaman af því að föndra og baka. Ég er enginn gæðabakari, en það er nóg af sykri í því sem ég baka svo það er alla vega bragðgott."
ÆTLAÐI AÐ VERÐA ENSKUKENNARI
En hvers vegna valdi Kolbrún starfsferil hjúkrunarfræðingsins? ,,Ég ætlaði mér alltaf að verða enskukennari og kláraði BA í ensku í Háskóla Íslands með það að markmiði að taka meistaragráðu í kennsluréttindum. Ég bjó á þeim tíma í Reykjavík með vinkonu minni og hún var að vinna á hjúkrunarheimilinu Sóltúni. Mig vantaði sumarvinnu og hún sannfærði mig að sækja um. Þetta sumarstarf var hins vegar mitt gæfuspor í lífinu því þarna fann ég minn tilgang og framtíðarstarfsvettvang."
SÓLTÚN ÓL KOLBRÚNU UPP
Kolbrún útskýrir gæfusporið sitt nánar: ,,Það var Marta Jónsdóttir, fyrrum hjúkrunarstjóri á fyrstu hæðinni í Sóltúni sem hvatti mig eindregið til að fara í hjúkrunarfræði. Hún sá eitthvað í mér sem ég sá ekki og ef hún hefði ekki stappað í mig stálinu þá hefði ég aldrei látið slag standa, enda nýbúin með eitt háskólanám og fannst galið að byrja strax í nýju háskólanámi. Sóltún ól mig upp og þar byrjaði ég sem ófaglærður starfsmaður í umönnun og endaði sem hjúkrunarnemi. En ef ég væri hvorki hjúkrunarfræðingur né enskukennari, þá hefði ég ekkert á móti því að vinna á bar í Portúgal!"
FJÖLBREYTTIR VINNUDAGAR
Segðu okkur frá starfi þínu: ,,Ég sinni daglegum rekstri bráðamóttöku HSU. Dagarnir mínir eru mjög fjölbreyttir og ég fæ allskonar skemmtileg verkefni upp í hendurnar. Stór hluti dagsins fer í að svara tölvupóstum og senda inn verkbeiðnir, en ég funda líka með allskonar áhugaverðu fólki um hin ýmsu málefni. Stundum fæ ég líka tækifæri á að vera með á gólfinu og vinna með frábæra starfsfólkinu mínu í umönnun og hjúkrun sjúklinga. Við fáum mjög fjölbreyttan sjúklingahóp til okkar og okkur þykir magnað að fá að vinna með svo margvísleg viðfangsefni."
ÞÉTTUR OG FLOTTUR HÓPUR
,,Enginn dagur er eins á bráðamóttökunni og það er einmitt það sem okkur flestum finnst vera svo heillandi við starfið hérna. En starfsfólkið er klárlega það besta við vinnustaðinn. Þéttari og flottari hópi hef ég ekki unnið með og það er svakalega gott að vita að maður geti alltaf leitað til þeirra með allskonar vanda, enda eru þau uppfull af fróðleik. Svo er mannskapurinn hérna líka bara sjúklega fyndinn og hress! Hópurinn hérna er ótrúlega samhentur í að gera alltaf sitt besta og vera stöðugt að bæta deildina og verkferlana. Við ætlum að halda áfram þessu umbótastarfi og bæta gæði þjónustu okkar enn frekar á nýja árinu!"
Samhentur og eldhress hópur öflugra hjúkrunarfræðinga á bráðamóttöku HSU á Selfossi. Frá vinstri til hægri eru Bryndís Erlingsdóttir, Adda María Óttarsdóttir, Þórunn Ásta Helgadóttir, Elín Sigurðardóttir, Kolbrún Gunnarsdóttir, Kristín Inga Elísdóttir og Fanney Guðjónsdóttir.
Kolbrún: ,,Enginn dagur er eins á bráðamóttökunni og það er einmitt það sem okkur flestum finnst vera svo heillandi við starfið hérna. En starfsfólkið er klárlega það besta við vinnustaðinn. Þéttari og flottari hópi hef ég ekki unnið með."