Fara beint í efnið
Heilbrigðisstofnun Suðurlands Forsíða
Heilbrigðisstofnun Suðurlands Forsíða

Heilbrigðisstofnun Suðurlands

Þverflautuleikari, bókaormur, utanvegahlaupari og níföld amma íhugar hjólreiðar

21. október 2024

HSU á Selfossi // Björk Steindórsdóttir, yfirljósmóðir

Björk Steindórsdóttir

Björk Steindórsdóttir, yfirljósmóðir Heilbrigðisstofnunar Suðurlands (HSU).

Björk Steindórsdóttir, yfirljósmóðir Heilbrigðisstofnunar Suðurlands (HSU), fæddist á fæðingarheimilinu í Reykjavík hinn 17. maí 1969. „Þann dag var norska fánanum flaggað á strætisvögnum í Reykjavík í tilefni þjóðhátíðardags Norðmanna. Ég notaði strætó alla mína æsku og var því alltaf mjög stolt af því þegar flaggað var á strætisvögnum í tilefni afmælis míns og þjóðhátíðardags Norðmanna. Það var kannski fyrsta merkið um það að ég átti síðar eftir að flytja til Noregs og nema hjúkrun þar. Skemmtileg tenging!“

RÆTUR Í LAUGARNESI
Björk segir rætur æsku sinnar liggja í Laugarnesskóla í Reykjavík. Eftir það tóku Fellaskóli og Kvennaskólinn við okkar konu. „Hjúkrunarnám sótti ég til Noregs og nam þar við Fylkissjúkrahúsið í Heiðmörk og kláraði síðan ljósmæðranámið við Háskóla Íslands. Ég hef unnið á HSU frá því ég kom heim frá Noregi árið 1993 og er því búin að vera hér á Selfossi í liðlega þrjátíu ár! Ég starfaði sem hjúkrunarfræðingur á lyflækningadeild fyrst og meðfram ljósmæðranáminu, en færði mig svo alveg yfir á Ljósmæðravaktina 2002 þegar ég útskrifaðist sem ljósmóðir. Samhliða ljósmóðurstörfum á HSU vann ég alltaf líka á fæðingarvakt Landspítala eða alveg til 2019 þegar ég tók stöðu yfirljósmóður á HSU og hætti á Landspítala.“

NÍFÖLD AMMA
En hvernig eru fjölskylduhagirnir? „Ég er gift Grími Hergeirssyni og við eigum 4 börn, 4 tengdabörn og 9 barnabörn. Börnin okkar eru uppalin á Selfossi, en eru farin að dreifa sér aðeins. Nú á ég 2 börn búandi á Selfossi með sínum fjölskyldum. Við erum samhent fjölskylda og okkur finnst mikilvægt að fagna saman öllum afmælum og öðrum viðburðum.“

VELTIR FYRIR SÉR HJÓLREIÐUM
Hvað með lífið utan vinnu, áhugamál og ástríður? „Ég er alin upp við tónlist og bækur og það hefur fylgt mér gegnum lífið. Ég lærði til dæmis í mörg ár á þverflautu og var í lúðrasveitum og allskonar húllumhæi. Maðurinn minn kom svo með íþróttir inn í líf mitt og ég varð heilluð af hlaupum, sem þróaðist með tímanum út í utanvegahlaup.  Það er búið að færa mér ótrúlega skemmtileg hlaupaferðalög, samveru og kynni við fullt af fólki sem ég er mjög þakklát fyrir. Það má segja að það hafi verið ástríða mín í mörg ár að hlaupa utan vegar, í allskonar landslagi, með félagsskap eða ein. Ég hef heldur dregið úr hlaupum síðastliðin ár, en samvera með börnunum og barnabörnum er og verður alltaf miðpunkturinn í mínu lífi. Kannski fer ég bara að hjóla meira! Er það ekki í tísku í dag?“

GÆFUSÖM UNG MÓÐIR
Við forvitnumst næst um starfsferilinn og hvers vegna hún valdi ljósmóðurstarfið. „Ég varð ung ófrísk og eignaðist mitt fyrsta barn nýorðin 18 ára. Það var mín gæfa að verða ung móðir og sjá einfaldleikann í því að vera áhyggjulaus móðir. Á meðgöngu kviknaði eitthvað. Einnig var kona í fjölskyldunni að læra að verða ljósmóðir og ég var eitthvað að hlíða henni yfir ljósmóðurfræðin. Spíran fyrir faginu óx þá aðeins meira. Litla spíran tók samt sinn tíma í að vaxa almennilega, því ég var búin að vinna 8 ár við hjúkrun þegar ég helli mér í ljósmæðranámið. Ég held tvímælalaust að ég myndi velja aftur það sama ef ég ætti að velja mér núna aftur starfsferil.“

 GEFANDI STARF
„Ég hef verið farsæl í starfi hingað til og starfið hefur gefið mér mjög mikið. Mig hefur samt alveg stundum langað til að vinna í blómabúð eða fást við eitthvað listskapandi. En það fullnægir mér þó alveg að hafa það sem áhugamál að finnast föndur, kökuskreytingar, blóm og fallegir hlutir skemmtilegir. Ljósmóðurstarfið er nefnilega ástríðan mín!“

ENGINN DAGUR EINS
Við biðjum Björk um að setja okkur inn í starfshlutverk sitt og vinnudag. „Mitt starf sem yfirljósmóðir er aðallega að halda utan um þau verkefni sem tengjast ljósmóðurstörfum, bæði á meðgöngu, fæðingu og sængurlegu. Vinnan mín snýst auðvitað líka um starfsmannamál og að halda starfseminni gangandi á flestum af þessum stöðum. Vinnustaðurinn er auðvitað frábær og deildin okkar skemmtileg og ótrúlega fjölbreytt. Við vitum í raun aldrei hvernig dagurinn verður en þeir geta verið mjög ólíkir.“

LJÓSMÆÐUR VÍÐA
„Það er frábær ljósmæðrahópur á HSU og við vinnum mjög vel saman. Ljósmæður starfa vítt og breytt um Suðurlandið: Vestmannaeyjum, Höfn, Kirkjubæjarklaustri, Vík, Rangárþingi, Laugarási, Þorlákshöfn, Hveragerði og Selfossi. Við sinnum mæðravernd, fæðingum, sængurlegu, göngudeildarkomum, bráðakomum, símtalsþjónustu, leghálsskimunum og á nokkrum svæðum sinnum við ungbarnavernd.“

SKIPULAG OG SAMSKIPTI
Heilbrigðisstofnun Suðurlands er með skilgreinda fæðingastaði á Selfossi og Vestmannaeyjum. „Það eru alls staðar konur í barneignarferli og við reynum að mæta þeim og þeirra þörfum eins vel og við getum.  Þetta krefst skipulags og heilmikilla samskipta. Meðgangan er 9 mánuðir og það er margt sem getur komið upp á og þarf að fylgjast með.“

FRÆÐSLUFERÐ TIL BERLÍNAR
Næstum allar ljósmæður HSU eru nýkomnar úr fræðslu- og kynnisferð til Berlínar. „Þar skoðuðum við og fræddumst mjög vel um þýska fæðingaþjónustu. Það var sérlega fræðandi og skemmtileg ferð, en við skoðuðum stórt sjúkrahús, minni ljósmæðrastofu/heimili, ljósmæðraskóla og fengum mikið af flottum fyrirlestrum. Við snerum heim með gott veganesti og stoltar yfir íslenskri fæðingaþjónustu.” 

UMBÆTUR Á AÐSTÖÐU OG BÚNAÐI Á SELFOSSI
Við spyrjum að endingu um spennandi nýjungar í bígerð. „Við erum nýbúnar á Selfossi að fá fæðingastofuna flutta inn á Ljósmæðraeininguna okkar, en hún var staðsett á gamla skurðstofuganginum, sem nú er göngudeild krabbameinslækninga. Þetta hefur mælst mjög vel fyrir og starfánægja hópsins á Selfossi hefur aukist mikið. Konur og fjölskyldur þeirra láta líka mjög vel af þessari breytingu og er fæðingum hjá okkur heldur að fjölga eftir breytinguna. Mikið er lagt upp úr að fjölskyldum líði vel, finni sig velkomin og að umhverfið sé milt og afslappandi. Þannig ná góðu hormónin að flæða betur. Nú er síðan framundan innleiðing á nýjum hugbúnaði, sem tengist því að vista rafrænt fósturhjartsláttarrit og getað skoðað ritin í rauntíma annars staðar, til dæmis á hærra þjónustustigi og fá þar álit sérfræðings. Þetta er mjög stór áfangi fyrir okkur og gaman að segja frá!“

Björk Steindórsdóttir, Rakel Ásgeirsdóttir og Hugrún Jóna Hilmarsdóttir.

Þrjár ljósmæður: Björk Steindórsdóttir, Rakel Ásgeirsdóttir og Hugrún Jóna Hilmarsdóttir.

Þrjár ljósmæður: Björk Steindórsdóttir, Rakel Ásgeirsdóttir og Hugrún Jóna Hilmarsdóttir.

Öflugt tríó í heimilislegri aðstöðu fæðingarteymis HSU á Selfossi.

Notaleg aðstaða. Björk Steindórsdóttir og fæðingarlaugin hjá HSU á Selfossi.

Notaleg aðstaða. Björk Steindórsdóttir og fæðingarlaugin hjá HSU á Selfossi.

Aðalinngangur HSU á Selfossi.

Aðalinngangur HSU á Selfossi.