Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Heilbrigðisstofnun Suðurlands Forsíða
Heilbrigðisstofnun Suðurlands Forsíða

Heilbrigðisstofnun Suðurlands

„Það er svo gefandi að fylgja fólki eftir og sjá því batna“

15. nóvember 2025

Íris Óskarsdóttir er nýútskrifaður heimilislæknir sem starfar á heilsugæslunni á Selfossi. Hún lauk nýlega sérnámi í heimilislækningum og segir starfið bæði fjölbreytt og gefandi, þar sem engir tveir dagar eru eins.

Hún segir fjölbreytnina og tengslin við sjúklinga vera það sem heillar mest við fagið. 
„Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á forvarnarvinnu og því að geta brugðist snemma við sjúkdómum“ segir hún sem reynir að fylgja eigin ráðleggingum. Íris mætir í ræktina allt að fimm sinnum í viku til að lyfta lóðum og hugsar vel um mataræðið. Hún er einnig læknir í heilsu og lífstílsverkefninu Krafmiklir krakkar á heilsugæslunni.

Íris er frá Selfossi og fæddist á fæðingardeildinni þar. Hún vissi alltaf að hún ætlaði að verða læknir og segir námið og starfsreynsluna á Heilbrigðisstofnun Suðurlands hafa verið afar jákvæða. „Það er mjög gaman að vinna á HSU. Starfið er fjölbreytt, samstarfsfólkið frábært og handleiðslan góð,“ segir hún. Helstu áskoranir í starfi heimilislækna snýr að álagi að mati Írisar, mikil tímapressa og of mikil pappírsvinna ofan í fáliðað teymi heimilislækna.

Stefnan var að fara í lyflækningar, en hún sá fljótt að það væri skemmtilegra að vera heimilislæknir eftir að hafa unnið á HSU sem nemi og þá var ekki aftur snúið. „Það er svo gefandi að kynnast heilu fjölskyldunum og fylgja fólki eftir í gegnum lífið — sjá því batna eða halda krónískum sjúkdómum í jafnvægi sem lengst.“

Íris lýsir vinnunni á HSU sem einstaklega ánægjulegri og nýtur sín í starfi á heilsugæslunni 
„það er góður andi hér, gott fólk og fjölbreytt verkefni. Þetta er virkilega gott starfsumhverfi.“