Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Heilbrigðisstofnun Suðurlands Forsíða
Heilbrigðisstofnun Suðurlands Forsíða

Heilbrigðisstofnun Suðurlands

Stór hópur starfsfólks frá Heilbrigðisstofnun Suðurlands sótti EMS-ráðstefnuna í Stokkhólmi

1. júlí 2025

Frétt

Í byrjun júní tók 18 manna hópur sem starfar við utanspítalaþjónustu á Suðurlandi þátt í European EMS Congress 2025 á Waterfront ráðstefnuhúsinu í hjarta Stokkhólms.

Hópurinn samanstóð af 16 manns frá Selfossi og 2 frá Höfn, sem saman mynduðu líflegan og samheldinn hóp sem á það sameiginlegt að hafa mikinn áhuga á faginu.

Ráðstefnan, sem bar yfirskriftina ,,It Takes a System to Save a Life’’, lagði ríka áherslu á öryggi sjúklinga, gæða­mæl­ingu, nýjungar í utanspítalaþjónustu, áfallameðferð, tækninýjungar og almannavörslu. Þessir þrír ráðstefnudagar buðu upp á fjölbreytt úrval fyrirlestra, verkstofa og sýninga.

Dagskráin fól meðal annars í sér:

EMS Championships – Alþjóðleg keppni í utanspítalaþjónustu þar sem teymi frá 16 löndum kepptu í krefjandi, raunsæjum aðstæðum. Keppnin var bæði spennandi og lærdómsrík.

Vinnustofur og verklegar æfingar – Meðal annars um höfuðáverka, heilablóðfall, geðheilbrigði, fæðingar og margt fleira.

Tækjasýningar – Kynnt nýjasta búnaðinn fyrir utanspítalaþjónustu.

Fyrirlestrar og EMS-Talks – Stuttar og áhrifaríkar kynningar frá sérfræðingum alls staðar að úr heiminum. Þeir fjölluðu m.a. um menntun, öryggismenningu, árangursmælingar og tilfinningaleg áhrif starfsins.

Hópurinn frá Íslandi – reynsla, lærdómur og samheldni

Hópurinn frá Selfossi og Höfn kom heim fullur af innblæstri og nýrri þekkingu eftir þrjá viðburðaríka daga á EMS-ráðstefnunni. Ráðstefnan gaf einstakt tækifæri til að sjá hvernig aðrar þjóðir skipuleggja sína þjónustu, hvernig þau nýta tækninýjungar og hvernig þau nálgast menntun og verklag í utanspítalaþjónustu.

Við lærðum mikið – bæði hvað við getum gert betur og hvað við erum þegar að gera mjög vel. Það var sérstaklega gagnlegt að sjá hvernig litlu hlutirnir, sem oft gleymast í daglegum hamagang, skipta miklu máli þegar kemur að gæðum og öryggi í neyðarþjónustu. Samhliða því fengum við staðfestingu á því að margt af því sem við gerum hér heima stenst fyllilega alþjóðlegan samanburð – og í sumum tilfellum erum við jafnvel skrefi á undan.

Samveran á milli þátttakenda styrkti einnig tengsl og samvinnu, bæði innan hópsins og við erlenda kollega. Það var virkilega hvetjandi að upplifa þennan gríðarlega áhuga á faginu meðal fólks, ræða hugmyndir, skiptast á reynslu og fá hvatningu til að halda áfram að þróa þjónustuna heima fyrir.

Konur í bráðaþjónustu: Mikilvæg umræða á EMS-ráðstefnunni 2025

Ein af eftirtektarverðustu vinnustofunum á EMS-ráðstefnunni í Stokkhólmi í júní 2025 bar heitið "Women in EMS and the Impact to Patient Care", þar sem sjónum var beint að stöðu kvenna í utanspítalaþjónustu og áhrifum fjölbreytileika á þjónustugæði.

Á vinnustofunni komu saman konur og karlar úr ólíkum löndum og störfum innan bráðageirans til að ræða hvernig megi styrkja hlut kvenna í þessum mikilvæga geira. Lögð var áhersla á að auka sýnileika og áhrif kvenna, ekki aðeins innan vinnustaða heldur einnig í stefnumótun og leiðtogahlutverkum. Fjallað var um þær áskoranir sem margar konur mæta í störfum sínum, þar á meðal skert aðgengi að framgangi, skort á fyrirmyndum og jafnvel kynbundið misrétti innan ákveðinna kerfa.

En vinnustofan snerist ekki aðeins um vandamál – heldur einnig um lausnir. Þátttakendur unnu saman í hópum að hugmyndum um hvernig megi skapa öruggara og jafnara starfsumhverfi. Rætt var um mikilvægi mentorakerfa, leiðtogaþjálfunar, stuðningshópa og valdeflandi fræðslu. Einnig var vakin athygli á hagnýtum aðgerðum eins og sérhæfðri þjálfun í samskiptum og de-escalation-tækni, sem getur bæði styrkt einstaklinga og bætt öryggi sjúklinga.

Sérstök áhersla var lögð á tengslin milli fjölbreytileika innan teymis og bættrar þjónustu við sjúklinga. Rannsóknir sem kynntar voru sýna að teymi sem samanstanda af fólki með ólíkan bakgrunn – þar á meðal kyn, aldur og reynslu – skila betri niðurstöðum í meðferð, samskiptum og ákvarðanatöku. Fjölbreytni er ekki aðeins spurning um réttlæti heldur einnig um gæði.

Þátttakendur lýstu vinnustofunni sem einlægri, hvetjandi og nauðsynlegri.

Ávinningur fyrir framtíðina

Ráðstefnan hafði mikið gildi fyrir framtíðarþróun sjúkraflutninga og bráðaþjónustu á Íslandi. Með því að kynnast fjölbreyttum vinnubrögðum, nýjustu tækni og ólíkum aðferðum frá öðrum Evrópulöndum fengum við dýrmætan samanburð við okkar eigin verklag.

Við sáum skýrt hvar tækifæri eru til úrbóta – til dæmis í samskiptum, skráningu gagna og notkun tækninnar í daglegu starfi. Um leið fengum við staðfestingu á því að margt er gert af mikilli fagmennsku hér heima og að við erum í mörgum tilvikum að vinna á sama eða jafnvel hærra stigi en önnur lönd.

Þessi lærdómur mun nýtast bæði í faglegri þróun og menntun – og ekki síður í því að styrkja samstöðu og samstarf innan greinarinnar. Við komum heim með nýjar hugmyndir, aukna hvatningu og enn meiri trú á mikilvægi starfs okkar.

Höfundur greinar; Anna Lilja Ásbjarnardóttir, sjúkraflutningamaður á HSU