Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Heilbrigðisstofnun Suðurlands Forsíða
Heilbrigðisstofnun Suðurlands Forsíða

Heilbrigðisstofnun Suðurlands

Skrifað undir samning um ,,Gott að eldast" í Hveragerði

27. ágúst 2025

Frétt

Í dag hafa Heilbrigðisstofnun Suðurlands og Hveragerðisbær gert samning við Ás hjúkrunarheimili um samþætta heimaþjónustu við íbúa í Hveragerði frá 1. september nk. 

Verkefnið er tilraunaverkefni sem að byggist á aðgerðaráætlun Gott að eldast sem er samstarfsverkefni milli Félags- og húsnæðismálaráðuneytis og Heilbrigðisráðuneytis. Ás mun þannig sinna heimahjúkrun og félagslegum heimastuðningi við íbúa Hveragerðisbæjar 60 ára og eldri sem sækja um og fá samþykkta slíka þjónustu. Áður hefur í Ási verið starfrækt dagdvöl ásamt því að þaðan hafa íbúar Hveragerðisbæjar, sem óskað hafa eftir, fengið mat sendan heim.  

Díana Óskarsdóttir segir um samstarfið; 

„Með þessum samningi erum við að stíga stórt skref í þjónustu við eldri borgara í Hveragerði. Við erum að brjóta niður múra milli heilbrigðisþjónustu og félagsþjónustu með heildstæða sýn á þarfir hvers og eins þjónustuþega. Við vitum að innleiðing á nýju kerfi hefur í för með sér áskoranir en umfram allt er þetta spennandi tækifæri til að gera enn betur.“

Hún bætir við;

„Ég hef mikla trú á að þessi vegferð sem nú er hafin verði farsæl því með auknu samstarfi erum við betur í stakk búin að veita betri heildstæða þjónustu og þar með að hlúa að auknum lífsgæðum fyrir íbúa okkar. Því í grunninn viljum við öll njóta efri áranna sem best með öryggi, reisn og góðum stuðningi.“ 

Skrifað undir saminginn. Myndina tók Kjartan Örn Júlíusson.
Á myndinni eru Díana Óskarsdóttir, forstjóri HSU, Karl Óttar Einarsson, forstjóri Grundarheimilanna og Pétur Georg Markan, bæjarstjóri Hveragerðis

Elísabet Rán Óskarsdóttir, verkefnastjóri á HSU hefur leitt verkefnið áfram hjá stofnuninni síðastliðið ár og hefur um ferlið að segja;

„Þetta ár hefur verið bæði ánægjulegt og lærdómsríkt. Það hefur verið mikill heiður að fá tækifæri til að taka þátt í þessu mikilvæga verkefni og leggja mitt af mörkum við að móta heildstæðar lausnir sem samþætta félags- og heilbrigðisþjónustu fyrir eldra fólk. Það verður svo sannarlega gott að eldast í Hveragerði“

Berglind Rós Ragnarsdóttir, hjúkrunarstjóri heilsugæslunnar í Hveragerði og Elísabet Rán Óskarsdóttir, verkefnastjóri á HSU.

Gestir fögnuðu áfanganum með ljúffengum veitingum á Dvalarheimilinu Ás.

Mynd: Kjartan Örn Júlíusson.