Sjúkraliðinn sem lærði hjúkrunarfræði og starfaði sem kokkur í Noregi
24. september 2024
HSU á Selfossi // Halla Arnfríður Grétarsdóttir, deildarstjóri bráðamóttöku
Halla Arnfríður Grétarsdóttir, deildarstjóri bráðamóttöku HSU á Selfossi.
Halla Arnfríður Grétarsdóttir er deildarstjóri bráðamóttöku Heilbrigðisstofnunar Suðurlands á Selfossi (HSU). Starfsfólk bráðamóttökunnar er tæplega 50 talsins. Þar af eru um 25 hjúkrunarfræðingar, 12 sjúkraliðar og svo læknar. Margt starfsfólk deildarinnar sinnir jafnframt störfum annars staðar, en mætir svo reglulega á bráðamóttökuna og stendur vaktir þar. Þjónustusvæði bráðamóttöku HSU á Selfossi er það langstærsta á landinu, fjölbreytnin í viðfangsefnum umtalsverð og annir stundum gríðarlegar. Halla segir þó starfsmannaveltu meðal sjúkraliða og hjúkrunarfræðinga á deildinni vera mjög litla og það segi sína sögu um starfsandann.
SÍÐBÚINN MENNTASPRETTUR
Halla er fædd árið 1969 á Sólvangi í Hafnarfirð og uppalin þar í bæ þar sem hún bjó allt til ársins 2000 þegar hún flutti austur fyrir fjall til Selfoss. Hún geymdi það smávegis að hefja framhaldsskólagöngu. “Ég var orðin 37 ára þegar ég innritaði mig í Fjölbrautaskóla Suðurlands og útskrifaðist svo þaðan árið 2009 sem sjúkraliði og stúdent. Ég starfaði eftir það í þrjú ár sem sjúkraliði á Lundi á Hellu, en 2012 hóf ég fjarnám við Háskólann á Akureyri. Þaðan útskrifaðist ég 2016 sem hjúkrunarfræðingur og hef síðan bætt við við mig viðbótarnámi í bráðahjúkrun.”
KOKKUR Í NOREGI
Halla hefur unnið við ýmis störf gegnum tíðina, þar má nefna fiskvinnslu, verslunarstörf, bústörf og aðhlynningu. “Ég víla fátt fyrir mér. Árið 2014 ætlaði ég til dæmis að fara að vinna sem sjúkraliði í Noregi, en endaði sem kokkur á veitingahúsi í Hommelstø. Það var nokkuð krefjandi og óvæntur snúningur!”
BARNABÖRN OG CROSSFIT
Halla er gift Kristni Páli Pálssyni bílstjóra. “Við eigum tvær dætur saman, en fyrir átti ég einn son. Hann býr í Danmörku og á fimm syni. Eldri dóttir okkar býr í dag á Akureyri með sínar tvær dætur og yngri dóttir okkar býr hér á Selfossi. Barnabörnin okkar eru sem sagt sjö og í frístundum reynum við að hitta þau sem mest. Áhugamálin þess utan snúast um stunda Crossfit, njóta þess að ferðast erlendis, hlusta á hljóðbækur og prjóna.”
ELSKAR UMÖNNUN
Við spyrjum Höllu hvers vegna hún valdi sér starfsferil sjúkraliða og hjúkrunarfræðings. “Ég hef lengst af mínum starfsferli unnið við umönnun og elska það hlutverk, en þó vissulega með nokkrum hléum, samanber Noregsævintýrið. Ég byrjaði 17 ára gömul á Hrafnistu í Hafnarfirði, þá nýorðin móðir. Mín móðir starfaði þar sjálf árum saman þar og það var klárlega kveikjan að því að ég valdi þennan feril. En þessi störf hafa hentað mér vel og mér finnst gaman að vinna með fólki og fyrir fólk. Ég byrjaði hér á HSU árið 2016, strax eftir útskrift úr hjúkrunarfræði. Fyrst var ég að vinna bæði á lyflækningadeildinni og á bráðamóttökunni, en fyrir nokkrum árum var deildunum skipt alveg upp og ég hef verið á bráðamóttökunni síðan þá.”
BRÚAR BILIÐ
“Í dag er ég deildarstjóri bráðamóttökunnar, en er að brúa þar bil uns nýr deildastjóri tekur við, núna um miðjan október. Ég hef verið aðstoðardeildastjóri frá byrjun þessa árs. Í mínum verkahring er að hafa yfirsýn og meðal annars að passa að fullmannað sé á vaktir og bregðast við þeim breytingum sem verða. Það er töluvert utanumhald. Ég sé að auki um að panta öll lyf inn á deildina, gæti að stöðunni á búnaði og sinni margvíslegum samskiptum út af ýmsum málum.”
STÓRT UPPTÖKUSVÆÐI
“Við sinnum fyrst og fremst bráðaþjónustu hér á bráðamóttöku HSU á Selfossi. Til okkar leitar fólk með alls kyns erindi, en við setjum í forgang að sinna bráðum veikindum og slysum. Það hefur verið afskaplega mikil fjölgun í komum hingað á bráðamóttökuna frá því að ég byrjaði og það helst í hendur við mikla fjölgun íbúa á svæðinu. Þjónustusvæðið sem við sinnum er ansi stórt eða frá Þorlákshöfn og austur á Kirkjubæjarklaustur og Höfn. Þar að auki er þetta vinsælt ferðamannasvæði, bæði á veturna og sumrin. Sömuleiðis er mikil sumarbústaðabyggð í umdæminu og það fólk leitar til okkar eftir þjónustu.”
FJÖLBREYTT VERKEFNI
Halla tínir til nokkur verkefni bráðamóttökunnar til að veita smávegis yfirsýn. “Verkefnin sem við sinnum eru mjög fjölbreytt og enginn dagur eins, sem er algjörlega frábært. Fyrir utan hefðbundin viðfangsefni, þá sinnum við til að mynda endurkomu þar sem fólk kemur í endurmat og eftirlit eftir beinbrot og ýmist til að fá endurnýjað gifs eða að losna við gifs. Að auki er töluvert um að fólk komi í sýklalyfjagjafir til okkar, en það gefur fólki færi á að vera heima þó svo það þurfi sýklalyf í æð og þurfa því ekki öll að leggjast inn. Jafnframt sinnum við fólki sem þarf að koma í sáraumbúðaskipti utan opnunartíma heilsugæslu og svo lengi mætti telja. Það hefur líka aukist talsvert hjá okkur að sjúklingar dvelja hjá okkur í einhverja daga meðan þau bíða eftir innlögn eða aðgerð á Landspítala.”
EINSTAKUR STARFSANDI
Hún segir starfsandann einstakan og samstarfsfólkið það allra besta við vinnustaðinn. En svo fagnar hún fjölbreytninni í vinnudegi sínum. “Hér á bráðamóttökunni er mjög góður mórall þótt oft sé ansi mikið að gera og ástandið svo ögrandi að stundum fáum við það á tilfinninguna að við hlaupum ekki nógu hratt eða gerum ekki nóg. En við erum dugleg að hittast reglulega utan vinnu. Mörg okkar stunda líkamsrækt saman og þannig styrkjast vinaböndin. Það er lítil starfsmannavelta hér hjá hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum, sem segir stóra sögu um það að hér er gott og gaman að vinna!” segir Halla stolt í bragði.
Halla Arnfríður.
Frá vinstri til hægri eru Stefán Ágúst Hafsteinsson, læknir og sérfræðingur í barnaskurðlækningum sem tekur vaktir hjá HSU ásamt því að vinna á Drottning Sylvias Barnsjukhus í Gautaborg og á Landspítala, Berglind Rós Bergsdóttir, hjúkrunarfræðingur og kraftakona með meiru, og Halla Arnfríður Grétarsdóttir, deildarstjóri bráðamóttöku HSU á Selfossi.
Texti: Stefán Hrafn Hagalín
Myndir: Valgarður Gíslason