Pistill frá forstjóra
27. maí 2025
Um heimaspítalaþjónustu, fjarlækningar, mönnun og fjármögnun

,,Gott að eldast" í Árborg
Á dögunum var undirritað samkomulag á milli Heilbrigðisstofnunar Suðurlands (HSU) og Árborgar um samþætta heimaþjónustu sem er gert á grundvelli þróunarverkefnisins ,,Gott að eldast" sem er hluti af aðgerðaráætlun stjórnvalda. Samkomulagið var staðfest í Árborg. Viðstödd voru félags- og húsnæðismálaráðherra og bæjarstjóri Árborgar, auk fjölda gesta.
Liður í samþættingu heimaþjónustunnar í Árborg er að koma upp sérstöku móttöku- og matsteymi þar sem fulltrúar HSU og fulltrúar félagslegrar stuðningsþjónustu Árborgar fara yfir sameiginlegar umsóknir vikulega. Einnig er unnið að því að koma upp einni þjónustugátt fyrir allar beiðnir. Með þessu samstarfi tryggjum við að þjónustan sé veitt á réttum tíma, af réttum aðilum og með heildstæða sýn á þarfir hvers og eins. Þetta er mikilvægt skref í átt að samfelldri og einstaklingsmiðaðri þjónustu þar sem heilbrigðis- og félagsþjónusta vinna saman í þágu notandans.
Fjarvöktun með fjarheilbrigðistækni
Fjarvöktun HSU með fjarheilbrigðistækni á það sameiginlegt með Heimaspítala HSU að hún er að mörgu leyti að styðja við sama skjólstæðingahópinn, fyrst og fremst eldra fólk. Fjarvöktunin styrkir eftirlit með skjólstæðingum með langvinna sjúkdóma og stuðlar að umbótum, nýbreytni og auknum gæðum í heilbrigðisþjónustu.
Vöktunin fer þannig fram að skjólstæðingar framkvæma mælingar í heimahúsi sem síðan er fylgst með á skjáborði á heilsugæslunni. Um er að ræða stöðugar og samfelldar mælingar sem eru áreiðanlegri en tilfallandi stakar mælingar sem gerðar eru á stöð. Ávinningurinn er margskonar og skjólstæðingar bæði njóta og finna til aukins öryggis, vitandi að fylgst er náið með þeim. Þjónustan er því bæði hagkvæmari og skilvirkari en aðrar lausnir og hefur reynst afskaplega farsæl hjá HSU. Þessi þjónustu kemur sér sérstaklega vel á okkar þjónustusvæði þar sem vegalengdir geta verið miklar.
Tæknilausnir skipta sköpum
Markmið HSU er að tryggja örugga, faglega og aðgengilega heilbrigðisþjónustu fyrir öll, óháð búsetu, efnahag eða uppruna, og stuðla þannig að betri heilsu og lífsgæði íbúa á Suðurlandi. Svæðið er víðfeðmt og með dreifðar byggðir þar sem vegalengdir eru oft miklar og veðuraðstæður geta verið krefjandi. Til að mæta þessum áskorunum er nauðsynlegt að styrkja heilsugæslustöðvar á lykilstöðum og þróa úrræði á borð við fjarheilbrigðisþjónustu. Tæknilausnir geta skipt sköpum, ekki aðeins til að stytta ferðalög sjúklinga heldur einnig til að nýta betur tíma og sérfræðiþekkingu heilbrigðisstarfsfólks.
Fjaraugnlækningar fyrir sykursjúka
Í þessu samhengi er vert að nefna að ný og metnaðarfull fjarlækningaþjónusta HSU og Sjónlags hóf nýverið göngu sína á Selfossi þar sem sjúklingum með sykursýki er nú boðið upp á reglulegt augnbotnaeftirlit án þess að þurfa að ferðast til höfuðborgarsvæðisins. Markmið þjónustunnar er að auka aðgengi að eftirliti fyrir einstaklinga með sykursýki, með því að bjóða upp á nákvæma augnbotnamyndatöku á Selfossi með öflugum tækjabúnaði. Myndirnar eru síðan sendar rafrænt til augnlækna hjá Sjónlagi til greiningar. Þessi myndataka er lykilatriði í að greina hugsanlega fylgikvilla sykursýki, svo sem blæðingar, bjúgmyndun og próteinleka í æðum augans en sykursýki er æðasjúkdómur sem getur valdið skemmdum á litlum æðum í augnbotni og haft áhrif á sjón ef ekki er gripið inn í tímanlega.
Þarna hefur verið stigið enn eitt mikilvægt skrefið í þróun fjarlækninga á Íslandi, en HSU hefur síðustu árin lagt sig fram við að nýta tæknina til að efla þjónustu í heimabyggð. Þess má geta að sambærileg fjarlækingaþjónusta er nú þegar til staðar hjá HSU í Vestmannaeyjum.
Nýtt tölvusneiðmyndatæki fjármagnað
Þau gleðitíðindi bárust á dögunum að heilbrigðisráðherra hefur tryggt HSU rúmlega 140 milljóna króna fjárveitingu til kaupa á nýju tölvusneiðmyndatæki. Nýja tölvusneiðmyndatækið er kærkomið og mun skipta sköpum í þjónustu okkar við sjúklinga, einkum við greiningu og meðferð bráðatilfella.
Tækið kemur í stað eldra tækis og felur í sér mikilvæga uppfærslu og aukið öryggi fyrir sjúklinga. Þróun þessa búnaðar hefur verið hröð síðustu ár og nýja tækið mun til dæmis leiða af sér minna geislaálag á sjúklinga og jafnframt hefur rannsóknarhraðinn og þar með getan aukist til mikilla muna. Við bindum vonir við að hægt verði að festa kaup á tækinu og setja það upp á næstu mánuðum.
Bráðaviðbragð í Öræfasveit
Heilbrigðisráðherra hefur falið HSU að skipuleggja bráðaviðbragð í Öræfasveit þriðja sumarið í röð til að auka öryggi íbúa og ferðafólks á svæðinu. Miklar fjarlægðir eru á þessu landsvæði milli heilsugæslustöðva. Í viðbragðinu felst stöðug viðvera sjúkabíls með reyndum sjúkraflutningamanni sem sinnir bráðaþjónustu í samstarfi við björgunarsveitina Kára í Öræfum.
Markmiðið er að tryggja skjót viðbrögð, svo sem ef meta þarf áverka eftir slys, bregðast við bráðaveikindum, veita fyrstu hjálp og undirbúa flutning á sjúkrastofnun ef með þarf.
Vel gengið að manna læknastöður
Að gefnu tilefni skal það nefnt að vel hefur að gengið að manna heilbrigðisþjónustu í dreifðum byggðum á Suðurlandi í sumar. Á Höfn verða tveir lækna við störf á hverjum virkum degi. Í Rangárþingi er búið að manna stöður með tveimur til þremur læknum alla virka daga og í Laugarási verða jafnframt tveir læknar í allt sumar. Staðan í Vestmannaeyjum er einnig góð en á heilsugæslunni verða þrír til fjórir lækna yfir sumartímann.
Það hefur verið eitt af okkar lykilmarkmiðum hjá HSU að efla þjónustuna þar sem þörfin er mest, sérstaklega yfir ferðamannatímann þegar álagið er mikið. Gott samstarf við björgunarsveitir og aðra viðbragðsaðila til að tryggja skjót viðbrögð þegar á reynir skiptir miklu máli. Við erum ánægð með hve vel hefur tekist að manna lykilsvæði og tryggja þannig öryggi heimafólks og gesta.
Þakklæti sem mælist
Að endingu vil ég þakka mínu kæra samstarfsfólki fyrir þeirra ómetanlega framlag. Það er hin öfluga teymisvinna mannauðsins hérna og metnaður til framfara og umbóta, sem gerir okkur kleift að standa undir væntingum skjólstæðinga. Það sýna jákvæðar þjónustukannanir okkar, en þær eru á stöðugri uppleið samkvæmt mælingum.
Díana Óskarsdóttir, forstjóri HSU
