Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Heilbrigðisstofnun Suðurlands Forsíða
Heilbrigðisstofnun Suðurlands Forsíða

Heilbrigðisstofnun Suðurlands

Öryggi íbúa og ferðamanna í Öræfum tryggt með áframhaldandi bráðaþjónustu

1. júlí 2025

Frétt

Alma D. Möller heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að ráðast í frekari uppbyggingu á heilbrigðisþjónustu og bráðaviðbragði í Öræfum með það að markmiði að tryggja öryggi íbúa og vegfarenda allt árið um kring. Starfshópur verður skipaður til að móta framtíðarfyrirkomulag þjónustunnar, og hefur hann það hlutverk að skila tillögum til ráðherra fyrir lok október.

Jafnframt hefur ráðherra ákveðið að framlengja núverandi fyrirkomulag bráðaviðbragðs í Öræfum til loka árs 2025. Sú ákvörðun byggir meðal annars á sameiginlegu mati forstjóra Heilbrigðisstofnunar Suðurlands (HSU) og sveitarstjórnar Hornafjarðar, sem eru sammála um mikilvægi þess að tryggja viðbragðsgetu á svæðinu.

Þó að ferðamannafjöldi nái hámarki yfir sumarmánuðina hefur reynslan sýnt að mesta álag vegna alvarlegra útkalla er yfir vetrarmánuðina, sérstaklega frá desember til mars. „Ég tel brýnt að ráðast í þetta verkefni og tryggja þannig aukið öryggi bæði íbúa og ferðafólks á þessu strjálbýla en fjölfarna svæði,“ segir Alma D. Möller. Þá hyggst ráðherra einnig ræða við innviðaráðuneytið um aðgerðir til að bæta umferðaröryggi á svæðinu og kanna möguleika á uppbyggingu viðurkennds sjúkraflugvallar.

Síðastliðin tvö sumur hefur verið rekið sérstakt bráðaviðbragð í Öræfasveit, sem byggir á viðveru sjúkrabíls og reynds sjúkraflutningamanns í samvinnu við björgunarsveitina Kára. Að beiðni ráðherra skipulagði HSU slíkt viðbragð einnig fyrir sumarið 2025. Markmiðið er að tryggja skjót viðbrögð við slysum, bráðaveikindum og öðrum neyðartilfellum, veita fyrstu hjálp og undirbúa flutning á sjúkrastofnun ef með þarf.

Svæðið milli Kirkjubæjarklausturs og Hafnar spannar um 200 kílómetra og því getur heilbrigðisþjónusta verið torfengin ef engin staðbundin viðvera er fyrir hendi. Það er samdóma mat heilbrigðisráðuneytisins og Heilbrigðisstofnunar Suðurlands að nauðsynlegt sé að styrkja samþætt og staðbundið bráða- og heilsugæsluviðbragð á svæðinu allt árið um kring.

Starfshópurinn mun leggja fram tillögur að framtíðarfyrirkomulagi þjónustunnar með áherslu á öryggi íbúa og vegfarenda, skýra verkaskiptingu og skilvirkni í viðbrögðum.