Fara beint í efnið
Heilbrigðisstofnun Suðurlands Forsíða
Heilbrigðisstofnun Suðurlands Forsíða

Heilbrigðisstofnun Suðurlands

Nýtt húsnæði fyrir heilsugæslu í uppsveitum Suðurlands

13. júní 2024

Í ljósi stöðugrar uppbyggingar og fjölgunar íbúa í uppsveitum Suðurlands hefur Heilbrigðisstofnun Suðurlands (HSU) ákveðið að flytja starfsemi heilsugæslunnar í nýtt og nútímalegt húsnæði á svæðinu.

gullf.

Í janúar síðastliðnum auglýsti FSRE eftir húsnæði til að hýsa heilsugæslu HSU í uppsveitum Suðurlands. Þrjú tilboð bárust og eftir ítarlegt mat á tilboðunum var ákveðið að ganga til samninga við Hrunamannahrepp um að leigja húsnæði undir heilsugæslu HSU á Flúðum. Nýja húsnæðið býður upp á fjölmarga ávinninga fyrir samfélagið. Það er ekki aðeins fjárhagslega hagkvæmara en núverandi húsnæði, heldur verður það einnig sérhannað til að mæta nútímakröfum heilbrigðisþjónustu. Með betri aðstöðu og þjónustu tryggir HSU að heilbrigðisþjónusta svæðisins sé ávallt í samræmi við þarfir íbúa.

Staðsetningin á Flúðum leggur jafnframt grunn að frekari þjónustutækifærum, þar á meðal möguleika á opnun nýs apóteks. Flutningurinn mun einnig stuðla að bættu samstarfi við björgunarsveitir og aðra viðbragðsaðila sem eru með aðsetur á Flúðum, sem er mikilvægt fyrir öryggi og velferð íbúa.

Þetta framfaraskref er liður í stefnu HSU um að tryggja að íbúar í uppsveitum Suðurlands hafi aðgang að heilbrigðisþjónustu sem mætir þörfum nútímans. Með því að flytja heilsugæsluna á Flúðir er HSU ekki eingöngu að bæta aðstöðu heilbrigðisþjónustunnar, heldur er einnig verið að skapa öflugri grunn fyrir framtíðarþróun heilbrigðisþjónustu HSU í uppsveitum Suðurlands.

Flutningur heilsugæslunnar er fyrirhugaður vorið 2025 og mun nánari tímasetning verða tilkynnt þegar nær dregur.

Díana Óskarsdóttir, forstjóri