Fara beint í efnið
Heilbrigðisstofnun Suðurlands Forsíða
Heilbrigðisstofnun Suðurlands Forsíða

Heilbrigðisstofnun Suðurlands

Mikil og góð orka í Eyjum

30. ágúst 2024

HSU í Vestmannaeyjum // Gyða Arnórsdóttir, deildarstjóri sjúkradeildar

Gyða Arnórsdóttir

Hjúkrunarfræðingurinn Gyða Arnórsdóttir er deildarstjóri sjúkradeildar Heilbrigðisstofnunar Suðurlands (HSU) í Vestmannaeyjum, en starfsfólk deildarinnar er um 50 talsins og þjónustan afskaplega fjölbreytt. Gyða er fædd og uppalin í Eyjum og er af 1975-árganginum skömmu eftir gos. Hún gekk nokkuð hefðbundinn menntaveg og sótti Barnaskóla Vestmannaeyja, Framhaldsskólann í Vestmannaeyjum og skráði sig að endingu í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands. Samhliða námi fékkst hún við fiskverkun, afgreiðslustörf,  þrif á ýmsum stöðum og sem hjúkrunarnemi á LSH.

Fjölbreytt og gefandi starf

"Ég valdi þennan starfsferil af því að mig langaði til að sinna fjölbreyttu og gefandi starfi og vinna með fólki. Ég hafði frá því að ég var krakki horft til þess að vinna á sjúkrahúsi og svo fór eldri frændi minn í læknisfræði og það hafði örugglega ákveðin áhrif á það að ég skráði mig í hjúkrunarfræði," segir Gyða, sem hefur starfað á sjúkradeildinni í Eyjum síðan 2001, verið aðstoðardeildarstjóri í 11 ár og deildarstjóri árið 2007-2009 og nú aftur síðan 2022. 

Gyða á börnin Berglind, Rakel og Arnór, ásamt því sem tvö barnabörn, þau Mikael og Embla, hafa bæst við hópinn. Lífið utan vinnu litast af crossfit-iðkun og hlaupum, auk þess sem hún hefur gaman af því að ganga á fjöll. Heima við hefur hún lúmska ánægju af bakstri og eldamennsku.

Besta samstarfsfólkið

Hún kveður samstarfsfólkið það besta við vinnustaðinn. "En síðan elska ég fjölbreytileikann í starfinu og hversu gefandi það er þótt strembið sé oft og tíðum. En ef við tölum aðeins um Eyjar, þá er þetta er auðvitað með fallegustu stöðum á landinu og mikil og góð orka hér. Heilt yfir er líka afskaplega góð samstaða meðal bæjarbúa, sérstaklega ef reynir á."

Gyða segir starfsandann á HSU í Vestmannaeyjum ofboðslega góðan. "Við vinnum vel saman og erum mjög góð liðsheild. Það sýnir sig best undir miklu álagi á erfiðum og annasömum tímum. Einnig erum við dugleg að hittast utan vinnu og þurfum helst alltaf að vera með eitthvað gott partý framundan. Hérna á sjúkradeildinni höfum við tekið upp á því að vera alltaf með föstudagskaffi og annað starfsfólk í húsinu kíkir ósjaldan til okkar og freistar þess að fá eitthvað gott með kaffinu. Það er ekki að ástæðulausu sem við köllum vinnustaðinn stundum einfaldlega BESTA."

Hlutverk deildarstjórans

Hún segir starf sitt felast í því að stjórna, hafa yfirsýn og gera áætlanir um starfsemi deildarinnar og hjúkrun og þjónustu við skjólstæðinga. Það felur til dæmis í því að skipuleggja og halda utan um starf hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða og annars starfsfólks deildarinnar. "Einnig er ég fulltrúi deildarinnar í fjölbreyttri teymisvinnu með öðrum heilbrigðisstéttum, ásamt því að taka virkan þátt í klíníska starfinu sem ég tel mikilvægt.  Tek annað slagið vaktir og sé um dagdeild lyfjagjafa einn dag í viku þar sem hin margvíslegu lyf eru blönduð og gefin undir eftirliti."

Margvísleg þjónusta

Sjúkradeild HSU í Vestmannaeyjum er 18 rúma blönduð deild sem sinnir margvíslegri þjónustu. Við erum nánar tiltekið með 8 hjúkrunarrými, 1 hvíldarrými, 8 almenn sjúkrarými og 1 gjörgæslurými. Flest rýmin eru fullnýtt hverju sinni. Deildin er hand -og lyflækningadeild og er auk þess bráðamóttaka, sinnir til að mynda hjúkrun krabbameinssjúkra og líknandi meðferð ásamt lífslokameðferð. Töluvert er um endurhæfingu á deildinni, til dæmis eftir brot. Fæðingarþjónusta er til staðar í húsinu og sængurlega á deildinni sömuleiðis. Dagdeild lyfjagjafa er á sjúkradeildinni, þar sem meðal annars eru blönduð og gefin líftæknilyf og krabbameinslyf ásamt fleiri lyfjum.

Náin samvinna

Starfsfólk deildarinnar er rúmlega 50 talsins með tímavinnustarfsfólki. Þar af eru 30 sjúkraliðar, 15 hjúkrunarfræðingar​, 2 starfsmenn í býtibúri​, 1 starfsmaður í aukaþrifum og 1 ritari​. Að auki er lyflæknir hverju sinni á vakt,  farandlæknar sem eru viku í senn. "Svo er gott samstarf við fleiri sérfræðinga sem starfa fyrir deildina. Sjúkraþjálfarar koma alla virka daga, svo er gott samstarf við félagsráðgjafa og félagsþjónustu, presta, rakara og fótaaðgerðafræðing. Jafnframt er náin samvinna við heilsugæslulækna og heimahjúkrun."

Þrír sjúkraliðar í hjúkrunarfræði

Af nýjungum framundan, þá nefnir Gyða að nú verði komið á fót vaktstjórastöðu á virkum morgunvöktum fyrir sjúkraliða á öldrunargangi deildarinnar. "Ég held að það verði bæði skemmtileg og góð viðbót við mikilvægt starf sjúkraliða, sem muni hjálpa til í þeim skorti á hjúkrunarfræðingum sem við erum að eiga við. Svo eru alla vega þrír sjúkraliðar hjá okkur að hefja nám í hjúkrunarfræði og þau verða vonandi áfram á deildinni eftir útskrift."

Aukin fræðsla á óskalistanum

Við spyrjum Gyðu að endingu hvort að hún lumi á einhverjum óskalista í starfi. "Efst á óskalistanum er að halda við fræðslu. Myndi vilja hafa reglubundna fræðslu sem tengist klínískum hluta starfsins með einhverju sniði fyrir starfsfólkið. Við erum nú þegar með reglulegar tilfellaæfingar aðra hverja viku sem eru mjög þarfar og hjálplegar. Sjúkraflutningafólkið okkar á heiðurinn af þeim. Mig langar líka að bæta aðstöðu starfsfólks og hafa skipulagið enn betra, það gerir alla vinnu auðveldari og skilvirkari. Það væri líka óskastaða að hafa aðgang að iðjuþjálfa. Svo eitthvað sé nefnt!"

Gyða
Gyða