Fara beint í efnið
Heilbrigðisstofnun Suðurlands Forsíða
Heilbrigðisstofnun Suðurlands Forsíða

Heilbrigðisstofnun Suðurlands

Matreiðslumaðurinn sem ætlaði að verða bóndi

15. október 2024

HSU á Selfossi // Bjarni Birgisson, yfirmatreiðslumaður

Bjarni Birgisson

Bjarni Birgisson, yfirmatreiðslumaður HSU á Selfossi.


Viðmælandi okkar að þessu sinni er Bjarni Birgisson, yfirmatreiðslumaður Heilbrigðisstofnunar Suðurlands (HSU) á Selfossi. Bjarni fæddist þar í bæ 10. mars 1968, sem samkvæmt okkar bókum var sunnudagur. Hann arkaði barnaskólaveginn í Þingborg í Hraungerðishreppi og gekk svo í Gagnfræðaskólann á Selfossi. Hóf síðar nám í matreiðslu í Fossnesti/Inghól á Selfossi og lauk því á Gullna hananum í Reykjavík.

FJÖLBREYTTUR STARFSFERILL
Við spyrjum Bjarna um fyrri störf fram að núverandi starfi. „Eftir að hafa klárað matreiðslunámið, þá starfaði ég fjögur sumur á Hótel Reynihlíð í Mývatnssveit. Bakaði svo flatkökur á veturna og tók að mér veislur í Básnum í Ingólfsskála í Ölfusi. Ég var seinna eitt ár með mötuneyti SS á Hvolsvelli og síðan heil 14 ár í Skálholti þar sem ég sá um allar veitingar. Þar næst tók ég að mér skólamötuneyti Flúðaskóla og rak samhliða því veisluþjónustu. Hinn 1. júní 2019 hóf ég störf sem yfirmatreiðslumaður hjá HSU á Selfossi."

ÖFLUGT TEYMI Í ELDHÚSINU
Starf þessa reynslubolta í matreiðslugeiranum í dag felur í sér rekstur eldhúss HSU á Selfossi. Þar með talin eru innkaup á vörum, starfsmannahald og framreiðsla á mat fyrir sjúklinga og starfsfólk stofnunarinnar. Hjá teyminu hans Bjarna starfa tveir matreiðslumenn, einn matráður og starfsfólkið í eldhúsinu að auki er tíu talsins.

HESTAMENNSKAN ER ÁSTRÍÐAN
Okkar maður er kvæntur Láru Bergljótu Jónsdóttur, skólastjóra Reykholtsskóla í Bláskógabyggð. „Við búum á Blesastöðum í Skeiða- og Gnúpverjahreppi og eigum þrjú uppkomin börn og eitt barnabarn. Ég hef stundað hestamennsku frá barnsaldri og það er mín ástríða fyrir utan vinnuna, ásamt samveru með fjölskyldunni."

GAT EKKI ORÐIÐ BÓNDI
En hvers vegna valdi Bjarni sér starfsferil matreiðslumannsins? „Ég greindist með ofnæmi og gat því ekki orðið bóndi, sem leiddi til þess að ég þurfti að víkka út sjóndeildarhringinn. Í starfskynningu í gagnfræðaskóla fór ég á veitingastað og fann mína hillu. En annars hefði ég bara orðið bóndi með kýr, kindur og hesta."

Bjarni yfirmatreiðslumaður, Michelle eldhússtarfsmaður, Hjördís matráður, Ingibjörg eldhússtarfsmaður, Maria eldhússtarfsmaður og Jón matreiðslumaður.

Bjarni yfirmatreiðslumaður ásamt hluta af sínu fólki, sem frá vinstri til hægri eru Michelle Gladys Þorsteinsson eldhússtarfsmaður, Hjördís Guðmundsdóttir matráður, Ingibjörg Stefánsdóttir eldhússtarfsmaður, Mariia Romaniv eldhússtarfsmaður og Jón Ó. Guðmundsson matreiðslumaður.

Jón Ólafur Guðmundsson


Jón Ó. Guðmundsson, matreiðslumaður.