Klassískur kokkur sem myndaði 1.496 bæjarbúa
20. september 2024
HSU í Vestmannaeyjum // Bjarni Sigurðsson, matreiðslumeistari
Elva Dögg Björnsdóttir matráður og matartækninemi, Sigrún Gyða Þórarinsdóttir eldhússtarfsmaður, Ana Cleide Silva Dos Santos eldhússtarfsmaður á aukavöktum og Bjarni Sigurðsson, matreiðslumeistari HSU í Eyjum.
Bjarni Sigurðsson er matreiðslumeistari Heilbrigðisstofnunar Suðurlands í Vestmannaeyjum. Bjarni fæddist í Reykjavík árið 1973 og er alinn þar upp, en fluttist til Eyja fyrir nokkrum árum þar sem hann starfaði stutta stund við rafvirkjun áður en eldhúsið hjá HSU heillaði. Hann er félagslyndur dellukarl af gamla skólanum og smíðar lampamagnara í frístundum milli þess sem hann syngur í kór og sinnir stóra áhugamálinu, ljósmyndun, af elju og natni.
ÁTTI LJÚFA ÆSKU
„Ég átti ljúfa æsku og var í Hvassaleitisskóla. Fór svo að læra í gamla Hótel- og veitingaskóla Íslands, útskrifaðist með sveinspróf 1994, Síðan tók við meistaranám í MK, Hótel- og matvælaskóla Íslands, sem ég kláraði 1999. Ég byrjaði fyrst að elda með elsku mömmu eins og við flest öll gerum, en mín fyrsta eldhúsvinna var aftur á móti á Næturgrillinu 1987 þar sem ég starfaði sem aðstoðarmanneskja í eldhúsinu, bara 14 ára gamall. Ég lærði fagið á Café Óperu 1990-1994 og vann þar í stuttan tíma eftir útskrift. Hef starfað á þó nokkrum veitingastöðum frá þessum tíma. Þar má nefna Lækjarbrekku, Carpe Diem, Rauðará, Astró, Naustið, Glóðina, Matarlyst sem varð að Menu Veitingum og já, tekið talsvert af aukavinnu á öðrum stöðum,“ segir viðmælandi okkar.
ÁSTRÍÐAN UTAN VINNU
Bjarni er giftur Kristjönu Margréti Harðardóttir viðskiptafræðingi. „Við erum barnlaus en eigum hundinn Mola og erum skráð í fósturforeldrakerfið þar sem við höfum hjálpað smávegis. Stóra ástríðan mín utan vinnunnar hjá HSU er aftur á móti ljósmyndun. Um aldamótin fór ég nefnilega á upplýsinga- og margmiðlunarbraut í Iðnskólanum og kláraði þar ljósmyndanám. Ég tek að mér flest almenn ljósmyndaverkefni og er með stúdíó heima, þannig að þetta er smávegis aukavinna. Það verður líka að koma fram að ég er nýorðinn Elliðaeyingur, félagi í veiðifélaginu Elliðaey.“
1000 ANDLIT HEIMAEYJAR
„Við Kristjana fluttum til Vestmannaeyja um áramótin 2018-2019. Ég var með dálítinn listagjörning stuttu eftir að við fluttum til Eyja, sem bar yfirskriftina „1000 andlit Heimaeyjar“. Þar bauð ég öllum Vestmannaeyingum að koma til mín og fá tekna af sér mynd og það mættu 1.496 manns! Afraksturinn er hægt að skoða á 1000andlit.com.“
RAFMAGNSTÆKNI OG KÓRSÖNGUR
Bjarni segist að auki hafa gríðarlega mikinn áhuga á gamalli rafmagnstækni. „Ég hef til dæmis smíðað mér nokkra lampamagnara; steríógræjur sem byggðar eru á gamalli tækni. Svo er ég meðlimur í Karlakór Vestmannaeyja og Klúbbi matreiðslumeistara svo eitthvað sé talið upp. En ætli matreiðslan sé ekki langstærsta hugðarefnið hjá mér.“
VANN VIÐ RAFVIRKJUN
„Fyrst þegar við komum til Eyja, þá vann ég við rafvirkjun hjá Vinnslustöðinni, bara til að prufa eitthvað nýtt. Það var frábær tími, en eftir sex mánuði hjá Vinnslustöðinni bentu strákarnir þar mér á að HSU væri að leita að bryta og ég sló til. Hjá HSU starfa ég sem yfirmatreiðslumaður og sé alfarið um eldhúsið og almennan rekstur þess. Þar með talin eru innkaup, matseðlagerð, vaktaskipulag og almenn stjórnun – bara allt sem við kemur deildinni minni.“
STARFSANDI FJÖLMENNINGAR
Fastráðið starfsfólk í deildinni hjá Bjarna eru sex talsins. „Við vinnum á klassískum eldhúsvöktum. Þar af er ein kona sem er matartæknir og leysir mig af þegar ég fer í frí. Einnig er önnur kona að klára sama nám núna í vor. Til viðbótar erum við með þrælflottan strák sem er öllu vanur frá Mexíkó og eina stelpu frá Filippseyjum og aðra frá Brasilíu á aukavöktum. Þannig að það er fjölmenningarstarfsandi hjá okkur, sem er bara frábært.“
KLASSÍSK NÁLGUN
„Við erum að reka hérna fyrsta flokks eldhús þar sem við höldum í hefðir og leitumst frekar eftir gömlum og góðum réttum heldur en að eltast við eitthvað alveg nýtt. Erum mjög klassísk í okkar nálgun og reynum að gera sem mest frá grunni. Einnig langar mig að nefnda að allar okkar uppskriftir fyrir kökur og kaffimeðlæti fengum við hjá fjölskyldum okkar.“
VELLÍÐAN FÓLKS Í FYRIRRÚMI
„Starfsandinn hjá okkur er dásamlegur og við keppumst við að hafa eldhúsið okkar mannlegt og þægilegt. Við erum hérna að þjónusta stórkostlegt starfsfólk HSU og alla þá skjólstæðinga sem bæði stoppa stutt við og einnig þau sem búa hjá okkur. Við viljum að öll séu velkomin og líði vel. Okkur í eldhúsinu finnst voðalega gaman til að mynda þegar við fáum fyrirspurnir um hvort við getum haft eitthvað sérstakt í matinn. Við reynum alltaf að pota því inn á matseðilinn! Við höfum líka alltaf ís á miðvikudögum ætli það sé ekki okkar vinsælasta hefð. Það er alltaf svakalega gaman að vera í matsalnum á þeim dögum!“ segir Bjarni Sigurðsson, yfirmatreiðslumaður HSU í Vestmannaeyjum að lokum.
Kristín Harpa Halldórsdóttir matartæknir og aðstoðarmatráður, Raquel Sarmiento eldhússtarfsmaður og Oddfríður Lilja Jónsdóttir eldhús starfsmaður.
Elva Dögg Björnsdóttir matráður og matartækninemi, Sigrún Gyða Þórarinsdóttir eldhússtarfsmaður og Carlos Alberto Gonzales Guani matartæknir og reynslubolti.
Bjarni Sigurðsson, yfirmatreiðslumaður HSU í Vestmannaeyjum.
Myndir: Bjarni Sigurðsson og Haraldur Jónasson (Hari)
Viðtal: Stefán Hrafn Hagalín