Jólapistill forstjóra 2024
20. desember 2024
Árið 2024 hefur verið viðburðarríkt fyrir Heilbrigðisstofnun Suðurlands (HSU) og við höfum staðið frammi fyrir nýjum áskorunum sem og tækifærum sem hafa veitt okkur færi á að efla og bæta þjónustuna okkar. Í þessari yfirferð langar mig að deila með ykkur nokkrum af þeim helstu þáttum sem hafa staðið upp úr á árinu sem er að líða.
Á þessu ári fagnaði HSU 10 ára afmæli. Það er ótrúlegt að horfa til baka og sjá hvernig starfsemi stofnunarinnar hefur þróast og aðlagast að breyttum aðstæðum í heilbrigðisþjónustu á þessu tímabili. Stofnunin hefur stækkað gríðarlega og í dag rekum við heilsugæslur um allt Suðurland, sjúkrahús og hjúkrunarheimili á Selfossi og í Vestamannaeyjum, auk þess sem við önnumst sjúkraflutninga á öllu Suðurlandi. Á Selfossi er rekin sólarhringsþjónusta á bráðamóttökunni en þar er sinnt um 20.000 komum á ári og er móttakan orðin ein af þeim stærstu á landinu. Við höfum lagt ríka áherslu á sjálfbærni og fagmennsku sem grundvallaratriði í allri okkar starfsemi, auk þess að straumlínulaga starfsáætlanir til að styðja við framtíðarsýn HSU, þar sem grunnur er lagður á að vera í fararbroddi heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni og framúrskarandi vinnustaður.
Íbúafjöldinn á Suðurlandi vex hratt og með honum vaxa þjónustuþarfir. Okkar stærsta áskorun í þeim málum er mönnun sem nauðsynleg er til að tryggja fullnægjandi þjónustu á öllum okkar starfsstöðvum. Með markvissri uppbyggingu fjarheilbrigðisþjónustu skapast tækifæri til að veita góða heilbrigðisþjónustu þrátt fyrir takmarkaða mönnun innan starfsstöðvanna. Í þessari vegferð er jafnframt mikilvægt að efla teymisvinnu og þverfaglegt samstarf innan heilsugæslunnar, en þverfagleg þekking og reynsla eykur á skilvirkni þjónustunnar. Með auknu framboði á samdægurs bráðaþjónustu og innleiðingu á nýjungum sem bæta aðgengi að fagaðilum reynum við að koma til móts við þarfir samfélagsins.
Innleiðing nýjunga í öldrunarþjónustu, svo sem fjarvöktun einstaklinga með langvinna sjúkdóma, hefur reynst afar farsæl og þessi aðferð hefur nú verið innleidd á allar heilsugæslur HSU. Með fjarvöktun framkvæma skjólstæðingar reglulegar mælinga í heimahúsi undir leiðsögn og eftirfylgni heilbrigðisstarfsfólks sem fylgjast með öllum niðurstöðum mælinga. Við erum einnig stolt af áframhaldandi þróun á Heimspítala HSU. Þessi þjónusta mun breyta landslagi heilbrigðisþjónustu í heimahúsum, með aukinni læknis- og hjúkrunarþjónustu. Markmið þjónustunnar er að styðja við sjálfstæða búsetu og fækka innlögnum á sjúkrahús. Þessar nýjungar hafa ekki aðeins bætt gæði þjónustunnar heldur einnig aukið öryggi og sjálfstæði skjólstæðinga okkar.
Við erum svo lánsöm að í okkar röðum eru um 850 starfsmenn sem eru kjölfestan í heilbrigðisþjónustunni á Suðurlandi. Ég vil þakka hverjum og einum fyrir ómetanlegt framlag á árinu sem er að líða og er ég þakklát fyrir að hafa ykkur með mér á þessari vegferð.
HSU leitar stöðugt nýrra leiða til að þjóna samfélaginu betur og leggur ríka áherslu á þróun nýsköpunar til að efla gæði þjónustunnar. Við hlökkum til að halda áfram að vinna með ykkur öllum til að takast á við áskoranir framtíðarinnar og halda áfram á braut þróunar og nýsköpunar. Í byrjun ársins var haldinn Nýsköpunar- og vísindadagur HSU í fyrsta sinn þar sem fjölmörg verkefni voru kynnt til sögunnar. Langflest erindin voru haldin af starfsfólki HSU og voru öll til fyrirmyndar.
Ekki er hægt að loka þessari yfirferð án þess að minnast með þakklæti á þann velvilja sem HSU nýtur í samfélaginu og erum við afar þakklát öllum þeim fjölmörgu félögum, fyrirtækjum og einstaklingum sem hafa lagt okkur lið á árinu. Ég sendi þeim mínar bestu þakkir og virðingu.
Að lokum vil ég þakka starfsfólki HSU fyrir einstaklega gott starf á árinu sem er að líða, jafnframt þakka ég öll þeim sem stutt hafa við starfsemina fyrir gott samstarf.
Ég óska ykkur öllum gleðilegra jóla með von um ljúfar og góðar stundir yfir hátíðirnar.
Díana Óskarsdóttir, forstjóri