Fara beint í efnið
Heilbrigðisstofnun Suðurlands Forsíða
Heilbrigðisstofnun Suðurlands Forsíða

Heilbrigðisstofnun Suðurlands

HSU hlýtur 11 milljón króna styrk Fléttunnar til að innleiða Leviosa

11. október 2023

Leviosa

Fléttan

Heilbrigðisstofnun Suðurlands hefur hlotið 11 milljón króna styrk úr Fléttunni til að innleiða Leviosa sjúkraskrárlausn á stofnuninni þ.e. bráðamóttöku, sjúkrahúsum og heilsugæslu og færir starfsfólki nútímalegt skjáborð og skráningarviðmót sem getur stytt verulega skjátíma starfsfólks og þannig haft mikil hagræðingaráhrif en á sama tíma bætt þjónustu við sjúklinga og dregið úr álagi starfsfólks.

Óheyrilega miklum tíma heilbrigðisstarfsfólks er í dag varið við tölvuskjá (skv. HR-könnun: 50-70% af tíma lækna og hjúkrunarfræðinga) og hefur áhrif á biðtíma og þjónustu við sjúklinga auk þess að vera einn stærsti orsakavaldur kulnunar starfsfólks. Mestum tölvutíma er varið við sjúkraskrárkerfi sem eru frá seinustu öld og hafa ekki þróast í takt við nútímann.

Leviosa

Leviosa er ný sjúkraskrárlausn í þróun síðan 2020, stofnuð af m.a. lækni og er unnin í náinni samvinnu við heilbrigðisstarfsfólk. Þessi nálgun er í anda nýsköpunar þar sem lausnin verður til þar sem þekkingin er mest ("valdefling starfsfólks"). Leviosa er sniðið að þörfum starfseminnar og með þessa kjarnaþekkingu innan handar er hægt að þróa mun hraðar og ódýrar en eldri kerfi.

Leviosa er í skýinu og keyrir í vafra og því hægt að opna á hvaða tölvu eða snjalltæki sem er, hvar sem notandi er staddur. Þetta eitt og sér opnar á leiðir sem hafa ekki verið færar áður t.d. skráningarvinna við hlið sjúklings og vistun á myndum (t.d. af útbrotum eða sárum) sem áður var flókið að gera með borðtölvu. Vafralausn opnar á nýja möguleika fyrir fjarvinnu t.d. gagnaskráningu heiman frá (t.d. að sjúklingur geti svarað spurningalista fyrir eða eftir viðtal læknis), fjarráðgjöf bakvaktar fyrir næturvaktarlækni eða fjarsímtöl við sjúklinga. Starfsemi HSU nær yfir 31.000 km2 svæði og auðvelt aðgengi vafralausnar því afar verðmætt.

Með innleiðingu Leviosa fær starfsfólk öflugt skjáborð fyrir straumlínulagaða yfirsýn sjúklinga á deildum og nútímalegt skráningarviðmót til að gera sjúkraskrárnótur og tengd atriði (t.d. beiðnir, rannsóknarpantanir, lyfseðlar) með mun meiri afköstum. Leviosa hefur reynst stytta tíma skráningarvinnu um 46% og hefur því talsverð umbótaáhrif á stofnun þar sem skráningarvinna er mikil. Til dæmis eru gerðir 500 lyfseðlar daglega á HSU en Leviosa styttir lyfseðlagerð um 2mín eða 6.000klst árlega. Áætlað er að lausnin verði innleidd á um 4 mánaða tímabili og að í lok þess sé búið að prófa Leviosa þ.a. sé tilbúið fyrir notkun í raunumhverfi. Frumútreikningar hafa sýnt fram á möguleika á að spara gríðarlega mikið árlega með minnkuðum skjátíma. Tími sem sparast má nýta til að þjónustu sjúklinga betur, draga úr mistökum, bæta líðan starfsfólks og stytta biðlista. Þegar streita og álag minnkar er hægt að nota tímann til að þjónusta sjúklinga betur og af meiri alúð. Það fækkar mistökum og eykur ánægju bæði starfsmanns og sjúklings.