Fara beint í efnið
Heilbrigðisstofnun Suðurlands Forsíða
Heilbrigðisstofnun Suðurlands Forsíða

Heilbrigðisstofnun Suðurlands

Hestamaður og húsasmiður

25. september 2024

HSU á Selfossi // Björgvin R. Snorrason, deildarstjóri fasteigna og rekstrar hjá HSU

Björgvin R. Snorrason

Björgvin R. Snorrason, deildarstjóri fasteigna og rekstrar hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands (HSU).

Við höldum hér áfram að kynnast mannauðnum og starfseminni hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands (HSU). Björgvin Reynir Snorrason er deildarstjóri fasteigna og rekstrar hjá HSU og er með starfsstöð við Árveg á Selfossi. Björgvin er fæddur 28. október árið 1970 að Arnardrangi í Landbroti í Vestur-Skaftafellssýslu, en gekk síðan menntaveginn á Selfossi og útskrifaðist sem húsasmiður frá Fjölbrautaskóla Suðurlands.

Hann er giftur Guðbjörgu Elínu Hjaltadóttur sem er sjúkraliði hjá HSU og þau eiga þrjú börn og tvö barnabörn. Hestamennska er helsta áhugamálið og svo er hann jafnframt í Karlakór Selfoss.

"Eftir að ég kláraði sveinspróf, þá var ég að mestu með eigin rekstur þar til ég hóf störf hjá HSU. Ég held utan um allar framkvæmdir á starfstöðvum HSU, allt frá Höfn til Þorlákshafnar að Vestmannaeyjum meðtöldum. Þetta eru alls 10 staðsetningar, en starfsstöðvarnar eru talsvert fleiri," bætir Björgvin við.

"Við hjá fasteignum og rekstri sjáum um allt viðhald og smáviðgerðir hjá öllum starfsstöðvum HSU. Einnig sjáum við um þvott og móttöku á vörum og lyfjum. Deildin telur 7 á Selfossi og svo eru 2 í Vestmannaeyjum að auki. Á sjóndeildarhringnum í vinnunni er gaman er að segja frá því að næst á dagskrá er að bjóða út breytingar á vörumóttöku og svo eru breytingar á göngudeild í farvatninu," segir hann að lokum.

Björgvin R. Snorrason, Vilhjálmur Eggertsson, Jóhann Árnason og Þorvaldur Guðmundsson.

Frá vinstri til hægri eru Björgvin R. Snorrason, Vilhjálmur Eggertsson, Jóhann Árnason og Þorvaldur Guðmundsson.

Björgvin R. Snorrason.

Björgvin R. Snorrason.

Texti: Stefán Hrafn Hagalín
Myndir: Valgarður Gíslason