Fara beint í efnið
Heilbrigðisstofnun Suðurlands Forsíða
Heilbrigðisstofnun Suðurlands Forsíða

Heilbrigðisstofnun Suðurlands

Heimaspítali á Suðurlandi: Nýsköpun í heilbrigðisþjónustu fyrir eldra fólk

17. október 2024

Rekstur heimaspítala er nýjung í rekstri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands (HSU) sem felst í aukinni heilbrigðisþjónustu, þar með talinni læknisþjónustu, við fólk sem býr heima og þarfnast meiri stuðnings en almennrar félagsþjónustu og heimahjúkrunar. Heilbrigðisráðuneytið hefur gert samkomulag við stofnunina um stuðning við verkefnið. Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra og Díana Óskarsdóttir forstjóri HSU undirrituðu samkomulagið í gær.

Heimaspítali

Heimaspítalinn er einkum hugsaður fyrir tvo meginhópa: annars vegar hruma og fjölveika aldraða og hins vegar fólk á öllum aldri sem er í líknandi meðferð. Þjónustan miðar að því að bjóða persónumiðaða umönnun fyrir fólk sem þarfnast flókinna samsettra lausna, bæði á sviði heilbrigðis- og velferðarþjónustu. Heimaspítalinn styrkir þannig til muna þá þjónustu sem almennt er veitt í heimahúsum. Markmiðið er að draga úr þörf aldraðra fyrir að leita á bráðamóttöku og fækka innlagnardögum á spítala. Síðast en ekki síst er þjónustan til þess fallin að veita hrumum og fjölveikum öldruðum aukinn stuðning og meira öryggi sem gerir þeim kleift að búa lengur í sjálfstæðri búsetu en ella.

HSU hóf rekstur heimaspítalans í byrjun síðasta árs í tilraunaskyni og hefur unnið að þróun þjónustunnar síðan, fjárfestingu í búnaði, þjálfun starfsfólks o.fl. Stofnað var bráðavitjunarteymi mannað lækni, hjúkrunarfræðingi og sjúkraflutningamanni. Teymið fer í vitjanir í heimahús til þeirra sem þess þurfa með og þeir sem heyra undir teymið hafa jafnframt aðgang að sérstöku vaktnúmeri allan sólarhringinn. Myndsímtöl eru einnig hluti þjónustunnar og jafnframt eru fleiri velferðartæknilausnir nýttar til að sinna eftirliti með einstaklingum með langvinna sjúkdóma í heimahúsum.

Styður við verkefnið „Gott að eldast“

„HSU hefur með heimaspítalanum sýnt mikilvægt frumkvæði og nýsköpun sem er til þess fallin að efla heilbrigðisþjónustu á sviði þar sem þörfin er mikil og vaxandi“ segir Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra: „Þjóðin er að eldast og því mikilvægt að þróa þjónustu við eldra fólk þannig að hún taki sem best mið af þörfum hvers og eins, sé veitt á réttu þjónustustigi og á réttum tíma. Samþætting þjónustuþátta þvert á stofnanir og stjórnsýslustig er mikilvægur liður í þessu, líkt og er meginviðfangsefni aðgerðaáætlunar stjórnvalda „Gott að eldast“ um þjónustu við eldra fólk sem ýtt var úr vör í fyrra“.

„Við hjá HSU höfum lagt mikla áherslu á nýsköpun og þróun á þjónustu fyrir eldri einstaklinga til að mæta vaxandi þörf þeirra fyrir heilbrigðisþjónustu. Heimaspítalinn er slíkt nýsköpunarverkefni sem miðar að því að styðja við sjálfstæði eldri fólks og bjóða upp á fjölbreyttari lausnir sem dregur úr þörf á innlögnum á sjúkrahús. Ég fagna þeim stuðningi sem heilbrigðisráðherra hefur sýnt verkefninu og þeirri áherslu sem lögð er á framþróun í þjónustu við eldri borgara“ segir Díana Óskarsdóttir, forstjóri HSU.

Hingað til hefur þjónusta heimaspítala HSU verið bundin við íbúa í Árborg en stefnt er að því að stækka þjónustusvæðið á næstu misserum. Samkomulagið um stuðning heilbrigðisráðuneytisins við verkefnið er til eins árs. Í því felst fjárstuðningur með hliðsjón af veittri þjónustu og reglubundinni upplýsingagjöf HSU til ráðuneytisins um starfsemina.