Heilbrigðisstofnun Suðurlands hlýtur netöryggisviðurkenningu Aftra
8. janúar 2026
Heilbrigðisstofnun Suðurlands hlaut netöryggisviðurkenningu Aftra fyrir góðan árangur í netöryggisátaki.
Brad Egan og Daði Már Sigurðsson
Netöryggisfyrirtækið Aftra efndi til öryggisátaks sem stóð yfir í fjórar vikur og fól í sér markvissar öryggisáskoranir. Allir þátttakendur bættu öryggiseinkunn sína, sem er mælikvarði Aftra á það hversu vel tekst að draga úr eigin áhættu gagnvart netárásum.
„Netöryggi er lykilatriði í starfsemi Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, enda vinnum við með viðkvæmar upplýsingar og mikilvæga innviði,“ segir Daði Már Sigurðsson, deildarstjóri upplýsingatæknisviðs. „Þátttaka í netöryggisátaki Aftra var bæði gagnleg og lærdómsrík og gaf okkur tækifæri til að styrkja enn frekar öryggisvitund og verklag innan stofnunarinnar. Við erum stolt af því að hljóta þessa viðurkenningu og teljum hana staðfesta að við séum á réttri leið.“
Viðurkenning Aftra er veitt þeim fyrirtækjum og stofnunum sem sýna fram á virka þátttöku og áþreifanlegan árangur í netöryggismálum og er liður í því að efla almenna vitund og ábyrgð í netöryggi hér á landi.
