Fara beint í efnið
Heilbrigðisstofnun Suðurlands Forsíða
Heilbrigðisstofnun Suðurlands Forsíða

Heilbrigðisstofnun Suðurlands

Góður starfsandi og umhyggjusamt starfsfólk

5. október 2024

HSU í Eyjum // Jóna Björgvinsdóttir, skrifstofu- og rekstrarstjóri

Jóna Björgvinsdóttir, rekstrar- og skrifstofustjóri

Við höldum nú til Vestmannaeyja og ræðum stuttlega við Jónu Björgvinsdóttur, en hún er skrifstofu- og rekstrarstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands í Vestmannaeyjum. Jóna hefur starfað hjá stofnuninni samfleytt frá árinu 2001, fyrst á Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja og svo HSU frá sameiningu þessara stofnana.

FÆDD OG UPPALIN Í EYJUM
„Ég er fædd og uppalin í Vestmannaeyjum og gekk hérna í Barnaskólann, Gagnfræðaskólann og Framhaldsskólann. Kláraði seinna bókaranám við Háskólann í Reykjavík og hef jafnframt lokið framhaldsnámi við Háskólann á Bifröst. Sem unglingur vann ég í fiski, en hef mestmegnis unnið skrifstofustörf á fullorðinsárum. Ég er ekkja og á þrjú börn, þrjú tengdabörn og sjö barnabörn. Hvað snertir lífið eftir vinnu, þá eru áhugamálin fjallgöngur, líkamsrækt og prjónaskapur.“

TVEGGJA ÁRATUGA STARFSFERILL HJÁ HSU
„Það besta við vinnustaðinn er fólkið hérna – sjálfur mannauðurinn – en það besta við Eyjar er stærð bæjarins, íbúarnir og náttúran. Ég hef unnið hérna hjá HSU í liðlega 20 ár og líkar mjög vel. Starfsandinn er góður og umhyggja samstarfsfólksins gagnvart hvort öðru er mikil.“

VÍÐFEÐMUR VERKAHRINGUR
Við biðjum Jónu um að segja okkur aðeins nánar frá sínu starfi og viðfangsefnum. „Ég hef daglega umsjón með ýmsum þáttum, til dæmis skipulagi starfseininga, samvinnu við stjórnendur og upplýsingamiðlun til starfsfólks um ýmsa þætti starfseminnar. Í mínum verkahring er sömuleiðis talsverð vinna með mannauðsteymi, leiðbeina með Vinnustund og vaktakerfi og sinna öðru skipulagi eftir þörfum.“

BEINTENGING VIÐ FRAMKVÆMDASTJÓRN
„Ég starfa mikið á eigin spýtur og er í rauninni beintenging Vestmannaeyja við framkvæmdastjórn og sinni því flestum þáttum starfsemi á sjúkrahúsinu, heilsugæslunni og dvalar- og hjúkrunarheimilinu Hraunbúðum. Á sjóndeildarhringnum er að auka enn frekar samskiptin við Hraunbúðir sem er mjög áhugavert verkefni og verður ábyggilega afskaplega lærdómsríkt. Ég verð með aðstöðu á Hraunbúðum tvisvar í viku og kynnist því starfsfólkinu og heimilisfólkinu þar betur og held að það verði til góðs.”

Jóna Björgvinsdóttir