Gjafir frá velunnurum HSU
5. desember 2023
HSU er þeirrar gæfu aðnjótandi að eiga góða og sterka bakhjarla víða sem færa stofnuninni reglulega góðar gjafir.
Þann 21. nóvember s.l. gáfu Kiwanisklúbburinn Helgafell, Oddfellow Rbst. nr 3 Vilborg, Oddfellow St. nr 4 Herjólfur og Kvenfélagið Líkn, HSU í Vestmannaeyjum ljósameðferðateppi til meðferðar nýburagulu að andvirði 1.066.400 kr.
Um er að ræða ljósateppi sem sveipað er utan um nýburann til meðferðar við nýburagulu. Kostur þess er sá að barnið þarf ekki að liggja í hitakassa á meðan meðferð stendur, heldur getur verið hjá foreldrum sínum, getur nærst óhrindrað án þess að ljósameðferð sé rofin og meðferð stendur styttra yfir. Þannig er hægt að veita mikilvæga meðferð í heimahúsi sem er algjörlega ómetanlegt fyrir nýburann og fjölskyldu hans.
Besti árangur meðferðar við nýburagulu næst með því að geta meðhöndlað sem mest yfirborð líkamans og með þessari tækni, þar sem barnið er sveipað í ljósi er meðferðin auðveldari og líkur minnkar á alvarlegum fylgikvillum nýburagulu.
Þetta er kærkomin gjöf og í framhaldi af blossamæli sem félögin gáfu HSU í Vestmannaeyjum í vor. Sá mælir nemur gulu frá húð ungabarnsins þ.e. mælir hversu mikla gulu barnið er með.
Það er ómetanlegt að finna þann hlýhug sem svona gjöfum fylgir og aldrei hægt að fullþakka. HSU þakkar innilega fyrir gjafirnar og óskar þessum félagasamtökum velfarnaðar.
(myndir teknar af blaðamanni Tíguls í VE)