Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Heilbrigðisstofnun Suðurlands Forsíða
Heilbrigðisstofnun Suðurlands Forsíða

Heilbrigðisstofnun Suðurlands

Fjarvöktun HSU er einstakt nýsköpunarverkefni á landsvísu

4. júlí 2025

Viðtal // Fjarvöktunarfrumkvöðlarnir hjá Fjarvöktun HSU: Margrét Björk Ólafsdóttir hjúkrunarstjóri og Anna Margrét Magnúsdóttir aðstoðardeildarstjóri

Frumkvöðlarnir í Fjarvöktun HSU eru leiðandi sérfræðingar í slíkum verkefnum á landsvísu og nú horfa flestar ef ekki allar heilbrigðisstofnarnir landsins til frumkvæðis HSU á þessu sviði. Fjarvöktun HSU á það sameiginlegt með Heimaspítala HSU að hún er að mörgu leyti að styðja við sama skjólstæðingahópinn, fyrst og fremst eldra fólk. Fjarvöktunin styrkir eftirlit með skjólstæðingum með langvinna sjúkdóma og stuðlar að umbótum, nýbreytni og auknum gæðum í heilbrigðisþjónustu. HSU notast í verkefninu við norska fjarvöktunarhugbúnaðinn Dignio.

Fjarvöktun HSU þykir einstakt nýsköpunarverkefni í íslenskri heilbrigðisþjónustu og þótt víðar væri leitað. Við ræðum hérna við aðstandendur Fjarvöktunar HSU, þær Margréti Björk Ólafsdóttur, hjúkrunarstjóra heilsugæslu HSU á Selfossi, og Önnu Margréti Magnúsdóttur, aðstoðardeildarstjóra heilsugæslu HSU á Selfossi.

Stækkandi hópur

,,Staðan á verkefninu er góð, Við erum sífellt að vakta fleiri og fleiri skjólstæðinga okkar í gegnum Dignio. Hópurinn telur alls um 40 einstaklinga er sífellt að stækka. Hópurinn er mjög fjölbreyttur, en á það sameiginlegt að hafa fjölþættan heilsufarsvanda þar sem fjarvöktun nýtist vel.”

Himinlifandi skjólstæðingar

Hvernig hafa skjólstæðingar HSU tekið ykkur?
,,Eins vel og hugsast getur. Í upphafi innleiðingarinnar renndum við dálítið blint í sjóinn varðandi það hvernig fjarvöktunarkerfið Dignio myndi nýtast skjólstæðingum og okkur starfsfólkinu. Þar sem við vorum fyrsta heilbrigðisstofnunin til að innleiða Dignio, þurftum við í raun að trúa orðum söluaðilans um að þetta væri hjálplegt. Gott hefði verið að geta fengið álit annarra notanda, en þeir voru ekki til. Skjólstæðingar okkar sem eru fjarvaktaðir, tjá sig um mikið öryggi, tengdum vöktununum og sýna aukna ábyrgð varðandi heilsufar sitt.”

Vilja stækka skjólstæðingahópinn

Hver eru næstu skref?
,,Varðandi heilsugæslustöðina á Selfossi eru næstu skref klárlega að halda áfram með fjarvöktun og stækka hópinn enn frekar. Draumurinn er að fjarvöktun verði áhrifaríkur og góður valkostur varðandi lyfjabreytingar og annað hjá heimilislæknunum. Það myndi létta mjög álagi og fækka komum á heilsugæslustöðina þar sem tímar eru af skornum skammti.”

Miklir möguleikar

Hvernig sjáið þið fyrir ykkur að hægt væri að þróa fjarvöktunarþjónustu HSU enn frekar?
,,Í rauninni eru möguleikarnir mjög margir, við erum rétt að byrja. Umdæmi heilsugæslunnar á Selfossi, er mjög fjölmennt og það felast margir möguleikar í því að taka inn í Dignio enn fleiri sjúklingahópa. Varðandi útstöðvarnar utan Árborgar felast möguleikarnir hins vegar einnig í því að létta heilbrigðisstarfsfólki og skjólstæðingunum sjálfum ferðalögin. Í heimahjúkrun til einstaklinga sem þarf að fylgjast með, er jafnvel verið að keyra langar vegalengdir eftir eðlilegum mælingum. Þess í stað væri hægt að fjarvakta þessa einstaklinga á meðan að tími og kraftar starfsmannsins myndi nýtast veikari skjólstæðingum betur.”

Frumkvöðlar á landsvísu

Hvað með á landsvísu... hafið þið heyrt af svipuðum verkefnum annars staðar?
,,Við hjá HSU erum búin að hitta fulltrúa frá flestum ef ekki öllum heilbrigðisstofnunum á landinu á fundum til að kynna þetta fyrir þeim, að þeirra frumkvæði. Við höfum haldið fjölda fyrirlestra frá því að við byrjuðum fjarvöktunina; haldið erindi á ráðstefnum, fræðslum, fundum og víða fyrir heilbrigðisstarfsfólk og fleiri. Við höfum meðal annars kynnt verkefnið og verklagið fyrir landlækni, ráðherrum, forstjórum heilbrigðisstofnana og mörgum fleirum. Tókum til að mynda þátt í starfsþróunardegi nýútskrifaðra hjúkrunarfræðinga á Landspítala fyrir skemmstu. Einhverjir aðilar eru farnir að nota fjarvöktunarkerfi, en eru ekki komin með þessa reynslu sem við höfum.”

Fjarvöktun er framtíðin á heimsvísu

Og hvað með á heimsvísu... er þetta ekki framtíðin í heilbrigðisþjónustu?
,,Jú, fjarvöktun er framtíðin bæði hér á landi og út um allan heim. Í ljósi þess að mannfjöldaspár gera ráð fyrir gríðarlegri fjölgun aldraðra hér á landi og um MAÍ 2025 víða veröld þarf að bregðast við. Auknum aldri fylgja gjarnan aukning á heilbrigðisvandamálum þótt að það sé ekki algilt. Kerfin okkar, eins og þau er uppbyggð í dag, anna ekki þessum fólksfjölda. Það að við færum þjónustuna heim til fólks, í stað þess að fá alla inn á stofnanir er jákvætt. Með því að fjarvakta einstaklinga, fáum við upplýsingar sem okkur eru nauðsynlegar til að geta metið ástand skjólstæðinga okkar. Þær upplýsingar eru teknar í heimhúsi, á heimavelli einstaklingsins.”

Margrét Björk Ólafsdóttir hjúkrunarstjóri.

Margrét Björk Ólafsdóttir, hjúkrunarstjóri heilsugæslu HSU á Selfossi.

Anna Margrét Magnúsdóttir aðstoðardeildarstjóri

Anna Margrét Magnúsdóttir, aðstoðardeildarstjóri heilsugæslu HSU á Selfossi.