Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Heilbrigðisstofnun Suðurlands Forsíða
Heilbrigðisstofnun Suðurlands Forsíða

Heilbrigðisstofnun Suðurlands

Eyjakonan sem stýrir röntgendeild HSU veit fátt betra en handavinnu og bókalestur

26. mars 2025

Aðalbjörg Skarphéðinsdóttir, deildarstjóri röntgendeildar HSU

Aðalbjörg Skarphéðinsdóttir, deildarstjóri röntgendeildar HSU.

Geislafræðingurinn Aðalbjörg Skarphéðinsdóttir er deildarstjóri röntgendeildar HSU þar sem hún stýrir öflugu teymi níu sérfræðinga. Aðalbjörg er fædd og uppalin í Eyjum. Hún sneri þangað aftur ásamt eiginmanni sínum til að vinna sem geislafræðingur og ala upp börnin þeirra þrjú að námi loknu áður en hún hélt aftur upp á meginlandið. Í dag er hennar starfsstöð hjá HSU á Selfossi. Aðalbjörg veit fátt betra en hannyrðir og bókalestur sem hún nýtur gjarnan á hljóðbókaformi í göngutúrum. Hún segir starfsfólkið það besta við vinnustaðinn og stýrir öflugu teymi níu sérfræðinga.

KRÖFTUGT TEYMI
Hjá röntgendeild HSU starfar kröftugur hópur í fremstu röð. Á Selfossi eru sex geislafræðingar og einn nemi og í Vestmannaeyjum eru tveir geislafræðingar. Hjá heilsugæslu HSU á Höfn eru hjúkrunarfræðingur og læknir sem sjá um röntgenmyndatökur þar. Teymið sér um að taka röntgen- og tölvusneiðmyndir í umdæminu, sem telur um 30 þúsund manns og spannar um þriðjung Íslands. Þrjú röntgentæki og tvö tölvusneiðmyndatæki skiptast milli bæjarfélaganna í Eyjum, á Höfn og Selfossi.

ÞINN VERKAHRINGUR?
,,Í mínum verkahring eru að hafa umsjón með daglegum rekstri myndgreiningardeildar eins og röntgendeildin heitir formlega. Það felur meðal annars í sér að stilla upp vaktaplönum og hafa umsjón með mönnun á starfsfólki. Einnig sinni ég daglegri vinnu og geng vaktir á deildinni hérna á Selfossi."

BEST VIÐ VINNUSTAÐINN?
,,Það besta við vinnustaðinn er auðvitað samstarfsfólkið. Hér vinnur flott og gott starfsfólk."

HVAÐAN ERTU?
,,Ég fæddist í Vestmannaeyjum 5. janúar 1976 og eftir hefðbundna skólagöngu í Eyjum útskrifaðist ég með stúdentspróf frá Fjölbrautaskólanum þar og seinna sem geislafræðingur frá Tækniháskóla Íslands vorið 2004."

FYRRI STÖRF?
,,Ég starfaði við ýmislegt meðfram skóla og vann til dæmis í fiskvinnslu, sjoppu, félagsmiðstöð og ÁTVR. Svo var ég einnig flokksstjóri í unglingavinnunni í Eyjum. En ef ég þyrfti að velja eitthvað annað en það sem ég fæst við í dag þá yrði eitthvað tengt handavinnu fyrir valinu."

HVERS VEGNA GEISLAFRÆÐINGUR?
,,Mér fannst starfið áhugavert strax við fyrstu kynni og það hjálpaði líka til að það var auðvelt að fá vinnu við það. Þetta námsval mitt var því fremur einfalt. Ég vissi að það var vöntun á geislafræðingum, sérstaklega í Eyjum þaðan sem ég er. Þar af leiðandi taldi ég miklar líkur á að geta snúið heim að loknu námi með fjölskylduna mína og geta alið börnin mín upp í Eyjum. Eftir að hafa sjálf alist upp þar og vitandi hvað það er gott að vera þar, þá var það auðveld ákvörðun að fara heim eftir nám og þetta gekk allt saman eftir."

FJÖLSKYLDUHAGIR?
,,Ég er gift Magnúsi Inga Eggertssyni húsasmíðameistara, sem starfar í dag sem verkstjóri hjá Þjónustumiðstöð Árborgar. Við eigum þrjú börn og hund."

LÍFIÐ EFTIR VINNU?
,,Helstu áhugamál mín eru handavinna, einkum prjón og hekl. Ég les mikið og hlusta á hljóðbækur. Er yfirleitt með bók í eyrunum í göngutúrum og svo er Kindle-rafbókin mín aldrei langt undan. Einnig finnst mér gaman í góðum göngutúrum, sérstaklega þegar veðrið er gott."

Frá vinstri til hægri eru Dóra Kristrún Brynjarsdóttir, Aðalbjörg Skarphéðinsdóttir og Guðrún Óskarsdóttir Andreasen.

Frá vinstri til hægri eru Dóra Kristrún Brynjarsdóttir, Aðalbjörg Skarphéðinsdóttir og Guðrún Óskarsdóttir Andreasen.

Frá vinstri til hægri eru Guðrún Óskarsdóttir Andreasen, Þórkatla Hermannsdóttir og Karlo Publico Mendoza (Brigs).

Frá vinstri til hægri eru Guðrún Óskarsdóttir Andreasen, Karlo Publico Mendoza (Brigs) og Þórkatla Hermannsdóttir.

Axel Bragi Bjarnason í Eyjum undirbýr tölvusneiðmyndatöku.


Axel Bragi Bjarnason í Eyjum undirbýr tölvusneiðmyndatöku.