Blóðskilun á HSU 10 ára
10. desember 2024
Um þessar mundir eru 10 ár frá því að blóðskilun hófst á HSU, nánar tiltekið þann 28. nóvember 2014. Byrjað var með tveimur vélum og voru fyrstu skjólstæðingarinir þrír talsins. Síðan þá hefur starfsemin á deildinni vaxið gríðarlega og aldrei komið upp sú staða að enginn skjólstæðingur hafi verið á deildinni þó fjöldi þeirra hafi verið rokkandi, sérstaklega í byrjun starfseminnar. Árið 2015 voru komur sjúklinga í blóðskilun 406 en árið 2023 var fjöldinn kominn upp í 831 og hafa aldrei verið fleiri.
Í dag er deildin að notast við fjórar vélar þar sem ein vélin er tvísetin og því eru fimm skjólstæðingar sem koma á deildina þessa dagana, þrisvar sinnum í viku allan ársins hring, þeir eru í vélinni allt frá 2. upp í 4. klukkustundir og því má sjá að viðveran hjá okkar fólki er mikil.
Það má segja að deildin sé nokkurs konar útibú frá blóðskilunardeild LSH en þessir skjólstæðingar eiga sína nýrnalækna þar og þeir stýra meðferðum þeirra. Teknar eru blóðprufur með reglulegu millibili hjá skjólstæðingunum og svo er í framhaldi teknir fjarfundir með nýrnalæknum og hjúkrunarfræðingum á LSH þar sem áætlanir eru gerðar með áframhaldandi meðferð. Þess á milli hafa hjúkrunarfræðingar á göngudeildinni hjá HSU greiðan aðgang að starfsfólki blóðskilunardeildar LSH, bæði með vaktsíma sem alltaf er hægt að hringja í og eins í gegnum spjallrás Heilsugáttar. Upphaflega hófst starfsemi deildarinnar innst á gangi bráðamóttökunnar en í byrjun covid faraldursins var ákveðið að færa deildina upp á 2. hæð, þar sem áður var skurðstofa. Sú breyting reyndist vera af hinu góða og þar er deildin nú komin til með að vera. Þessa dagana standa yfir heilmiklar breytingar á húsnæði deildarinnar, starfsfólkinu til mikillar ánægju. Ákveðið hefur verið þegar þeim framkvæmdum lýkur, að bjóða starfsfólki og velunnurum deildarinnar í heimsókn til að skoða nýja aðstöðuna og fagna 10 ára starfsemi deildarinnar. Myndirnar að fylgja með fréttinni voru teknar á fyrsta skilunardegi þann 28. nóvember 2014.